Ferðin til Martin gekk bara vel. Flogið var með Wizz air frá Keflavík til Búdapest þar sem leigubíll beið okkar. Við tóku 3,5 tímar í leigubíl sem gengu bara vel. Sérstaklega eftir að Alla hafði áttað sig á því að hún var í austur evrópu og leigubílstjórinn var Slóvaki en ekki Spánverji. Hann skildi ekki „si si“ eða önnur spænsk orð.
Eftir aksturinn í leigubílnum bókuðum við okkur inn á hótel Turiec í Martin og héldum síðan heim til Eddu og Magga þar sem okkar beið gómsætt Lasagne. Klukkan var orðin margt og allir þreyttir eftir ferðalagið þannig að fljótlega var haldið til baka á hótelið.
Hótel Turiec er flott og snyrtilegt 4 stjörnu hótel sem lokar kl. 22.00 og ef maður er á feðinni eftir þann tíma þarf að hringja dyrabjöllunni til að komast inn. Þegar ég ákvað eitt kvöldið um kl. 23.00 að fara aðeins út að gá til veðurs og fá mér hreint loft hélt ég að ég væri í Twilight zone eða að tíminn á úrinu mínu væri kolrangur. Hótel móttakan var myrkvuð og enginn starfsmaður sjáanlegur. Mér tóks þó eftir stutta leit að finna einn til að hleypa mér út og inn aftur nokkrum mínútum seinna. Íbúar Martin eru víst ekki næturhrafnar og flestir virðast komnir í háttinn um kl. 21.00. Þeir eru hins vegar miklir morgunhanar og komnir á fulla ferð um kl. 6.00.
Eftir góðan nætursvefn og morgunverð á hótelinu næsta dag var haldið heim til Eddu og Magga og um kvöldið borðuðum við páksamat að hætti Slóvaka á hótelinu. Alla fékk reyndar bara forrétt þar sem þjónninn skildi ekki spænsku en við hin vorum sæmilega sátt við okkar mat.
Næsta morgun, á fimmtudegi, var síðan ekið til baka niður til Budapest þar sem við erum núna í góðu yfirlæti á sæmilegu hóteli í miðbænum.
Í gær fórum við í skoðunarferð í Budakastala þar sem við heimsóttum „sjúkrahúsið í klettinum“ en það er sjúkrahús sem byggt var í hellakerfi undir kastalanum og notað til að sinna særðum í heimsstyrjöldinni og uppreisn Ungverja gegn Sovíetmönnum. Á tímum kalda stríðsins var því síðan breytt í einskonar kjarnorkubyrgi. Það var magnað að skoða þetta safn.
Til að komast þangað tókum við leigubíl og í þetta skipti var bílstjórinn kona. Það tók okkur ekki nema 5 mínútur að komast á safnið en á leiðinni notaði Alla tækifærið til að kynnast bílstjóranum og gott ef hún er ekki búin að eignast þar nýja facebook vinkonu. Hún komst að því að bílstjórinn sem heitir Barbara, er Ungverskur sígauni sem hefur búið og starfað víða í heiminum. Alla sagði henni allt um sína hagi og bætti því við að hún elskaði sígauna og hafi líklega verið einn slíkur í fyrra lífi.
Að skoðunarferð í Budakastala lokinni var haldið niður að á þar sem við fórum um borð í svona „hop on-hop off“ bát. Það var gaman að sigla um ána en upplifunin var ekkert sérstök þar sem ekkert heyrðist í leiðsögumanninum í hátalarakerfi bátsins. Pínulítið „ripp-off“ þarna.
Í morgun, laugardag, lét ég mæðgurnar síðan plata mig til að ganga með þeim á Budamarkaðinn. Það var góð ganga enda gaman að skoða sig um í borginni. Markaðurinn var stór og mikill á tveimur hæðum með matvöru á neðri hæð og tuskum á þeirri efri. Sannkallað hryllingshús sem ber að forðast í lengstu lög. Þarna berst maður með straumnum út um allt innan um endalausa hillurekka með túristavörum merktum borginni. Það er tölvuverð áreynsla að komast óskaddaður í gegnum svona markað og ég var mjög feginn þegar komst loksins út.
Eitt gott hlaust þó af þessari ferð á markaðinn. Ég fékk í bakið og varð þess vegna að tilkynna veikindi í verslunarferð dagsins þar sem búið var að skipa mig pokadýr. Ég fæ þess vegna að hvíla lúin bein og skrifa þetta á meðan konurnar æða búð úr búð í leit að einhverjum tuskum til að taka með heim. Á morgun er síðan dýrðardagur framundan þar sem Ungverjar hafa fatabúðirnar lokaðar á Páskadag.