Þegar ég lagðist á koddann í gær átti ég frekar erfitt með að sofna. Það var eitthvað sem var . Eitthvað sem angraði mig. Allt í einu fattaði ég hvað það var. Ég hafði verið rændur í Búdapest.
Eftir matinn fyrr um kvöldið höfðum við farið 5 saman á veitingastað rétt við hótelið til að fá okkur einn drykk fyrir svefninn. Rúnar var reyndar farinn inn á hótel að sofa sem er ekki skrýtið þar sem hann er aldursforsetinn í hópnum og hefur ekki sama úthald við hin sem yngri erum. Menn á hans aldri þurfa bara meiri svefn. Þegar allir voru búnir að klára drykkina sína borgaði ég en aldrei þessu vant þá leit ég ekki á posann þegar ég sló lykilorðið inn og gleymdi að taka kvittunina með mér. Þetta voru jú líka bara 4 drykkir sem á íslenskan mælikvarða kosta „ekki neitt“ í Ungverjalandi. Upphæðin sem ég hafði borgað fyrir þessa 4 drykki var 17.900 ungverskir eitthvað (veit ekki hvað gjaldmiðillinn heitir) sem gerir um 8.000.- íslenskar krónur. Á Íslandi hefði þetta verið eðilegt en ekki í Ungverjalandi.
Fyrsta verk morgunsins var að heimsækja veitingahúsið og kvarta yfir þessu. Ég var vel studdur af Öllu og Eddu og sagði þjóninum farir mínar ekki sléttar. Þetta endaði allt með því að framkvæmdastjórinn mætti á svæðið. Hann var mjög almennilegur en af því að ég var ekki með kvittunina þá sagðist hann ekki geta endurgreitt mér. Hann bauðst hins vegar til að gefa okkur eitthvað að borða og niðurstaðan varð sú að við fengum 3 tertusneiðar í nesti. Þetta var smá bragabót og sem betur fór þá fór ekki allt í steik við þetta heldur bara í köku.
Í stað þess að fá nú að slappa af og gæða sér á kökunum í rólegheitum var þeim skellt inn í ísskáp á hótelinu og mér dröslað af stað í skoðunarferð að „frelsisstyttunni“ eða „nafnlausu konunni“. Hún stendur á hæstu hæðinni við borgina „Búda“ megin árinnar.
Hér er manni ekki sýnd nein miskunn og þegar Torfhildur stakk upp á því að myndum labba þarna uppeftir mótmælti ég kröftuglega og fékk það í gegn að við færum í leigubíl upp og löbbuðum niður. Útsýnið, þegar upp var komið, var frábært og það var gaman að skoða sig um þarna uppi en öll gleði tekur enda og niðurferðin var frekar erfið. Brattar brekkur og steintröppur og engu líkara en lappirnar á mér væru fúnar og hnén hálf laus í sér.
„Þú þarft að hreyfa þig meira.“ Sagði Alla. „Og fara í sund eins og þú varst búinn að lofa.“ Bætti hún við.
„Ég hreyfi mig alveg.“ Svaraði ég og bölvaði í hljóði yfir því að hafa sagt henni um áramótin að mitt heit væri að ganga á fjöll á þessu ári og fara oftar í sund. Hún gleymir sko ekki því sem er sagt við hana.
„Þú ættir að fá þér svona stafi til að ganga með.“ Stakk Edda Þórunn upp á. „Þá verður auðveldara fyrir þig að labba á fjöll.“
„Ég get gengið alveg óstuddur“. Svaraði ég. „Ég þarf enga stafi til að styðja mig við.“
„Þeir myndu samt hjálpa þér.“ Sagði Edda. „Ég sé oft gamalt fólk með stafi að ganga upp Esjuna.“
Ég var nú búinn að nefna það að ég ætlaði að ganga einhver fjöll heima í sumar en eftir þessa ferð þá er ég efins um að ég þurfi þess nokkuð. Ég er örugglega búinn að ganga þúsund kílómetra hérna úti sem ætti nú að vera ágætis afrek fyrir mann eins og mig. Ég tel mig nú vera í ágætis formi enda labba ég í vinnuna á hverjum degi, en svona borgarferðir geta tekið á. Ég þakka núna mínum sæla fyrir að hafa sloppið við að vera pokadýr og að flestar tuskubúðir voru lokaðar í gær og í dag. Ef þær hefðu verið opnar er nokkuð ljóst að ég hefði þurft að taka aftur til minna fyrri starfa sem pokadýr og ég hreinlega veit ekki hvernig þá hefði farið fyrir mér.
Nú er að líða að lokum ferðar. Edda og Maggi fara til baka til Martin í kvöld og við gömlu höldum heim á leið í nótt. Þessi ferð er búin að vera frábær, gaman að heimsækja krakkana til Martin og Búdapest er flott borg. Mér líkar bara nokkuð vel við Ungverja, fyrir utan þessa sem rændu mig. Þeir eru kurteisir og tala flestir ensku en það sem mestu máli skiptir þá loka þeir tuskubúðunum um páskana.