Mér var tilkynnt það í gær að þar sem nú væru einungis nokkrir dagar eftir af ferðalaginu þá væri komið að því að láta hendur standa fram úr ermum og taka á því.
“Ég nenni ekki að labba meira.” Svaraði ég orðinn hálf þreyttur á að troða mér í gegnum túristana sem eru eins og maurar á strandveginum og segja nei á mínútu fresti við alla sölumennina. “Eigum við ekki bara að slaka aðeins á þessa daga sem eftir eru?”
“Slaka á! Alla var half hneyksluð á svip. “Ég þarf að ná sólinni. Ég þarf gersamlega að baka mig núna. Enginn tími til að slaka á.”
“Flott. Þá bara gerir þú það. Bakar þig í sólinni.” Þetta var alveg frábært. Loksins er sólin farin að láta sjá sig eftir skýjaða og vindasama daga og ég farinn að sjá fram á náðuga lokadaga hér á Benirife.
“Við eigum fjóra daga eftir og ég á eftir að fara í mollið og liggja sem mest í sólinni.”
“Mollið! Nei þú hefur engan tíma í það ef þú ætlar ekki að missa af sólinni.” Sagði ég.
“Jú ég vakna bara snemma, fer á ströndina og við getum síðan farið í mollið um tvö leitið.”
“Ég bara treysti mér ekki í moll. Ég er að drepast í öklanum, bakinu og í hnjánum.” Kvartaði ég. Þetta átti ekki að vera vinnuferð!
Í þessari ferð hef ég verið alvarlega minntur á það að ef ég ætla með Öllu á sólarströnd þá er eins gott að það sé sól á ströndinni allt ferðalagið. Um leið og sólin hverfur þá rís hún á fætur og skipuleggur eitthvað. Oftast fæ ég val um tvennt. Út að ganga eða í moll. Ég veit ekki hvort er verra vegna þess að ef ég vel mollið þá er oftast tekinn leigubíll þangað og síðan tekur við labb og pokaburður þegar á staðinn er komið. Ef ég vel gönguferðina þá eru hún oftast þannig að gengið er annað hvort framhjá röð af verslunum eða beint í næsta moll. Þess vegna er betra að velja bara mollið.
Í dag ákvað sólin að taka sér frí og viti menn, þá var ákveðið að fara í mollið. Einhverja svakalega hryllingsbúð sem heitir SiaMoll. Hvers konar nafn er það eiginlega? Og af hverju þessi moll? Ég man eftir pöntunarlistunum sem voru til í gamla daga. Þeir voru æðislegir. Núna vonar maður að netverslanir muni gera moll-ferðir óþarfar þó að líklega muni þær bara auka verslunina.
SiaMoll var þó eftir allt saman með skársta móti. Þar er nefnilega fullt af flottum veitingastöðum og börum undir beru lofti. Við karlmennirnir í ferðinni, Ég, Jói og Orri, gátum þess vegna sleppt konunum lausum og fengið okkur einn eða tvo kalda á barnum. Ákveðið var að gefa konunum einn og hálfan tíma, hittast síðan til að borða og gefa þeim síðan frjalsan tíma eftir það. Þær höfðu nú varla fyrir því að kveðja okkur heldur hurfu á ógnarhraða út í verslunarmiðstöðina.
Eftir einn og hálfan tíma komu þær til baka þungar á svip.
“Jæja, hvar eigum við að borða?” Spurði ég orðinn veruleg svangur.
“Ég er bara búin með tvær búðir” Svaraði Alla. Það var einhver tryllingslegur glampi í augunum á henni. “Ég verð að halda áfram. Ég er ekki búin að finna neitt.”
Áður en ég gat maldað í móinn var hún horfinn inn í mollið og Ásta á eftir henni. Hún hafði víst bara komist í eina búð. Við sem eftir stóðum ákvaðum að setjast niður og fá okkur og að borða og það var síðan í lok máltíðarinnar að Alla og Ásta birtust aftur.
“Ég fann ekki neitt.” Sagði Alla um leið og hún settist niður við borðið hjá okkur.
“Nú. Hvað er þá í þessum pokum?” Spurði ég og benti á alla pokana sem hún hélt á.
“Blessaður vertu. Þetta er ekki neitt. Ekkert sem ég var að leita að. Bara sokkar og eitthvað.” Svaraði hún. “Þetta er nú frekar lélegt moll.” Bætti hún við. “Ég er svöng Af hverju eruð þið búin að borða?” Glampinn var horfinn úr augunum á henni og hún var þreytuleg að sjá. Ég hafði smá áhyggjur af því að matur myndi gefa henni aukna orku til að versla meira. Það kom á daginn að þegar hún var búin að borða fékk hún orku til að fara í tvær búðir áður en við héldum til baka niður á hótel með góss dagsins.
Ég vaknaði nokkuð hress morguninn eftir moll daginn enda hafði ég farið snemma í háttinn kvöldið áður. Að fara í moll er erfiðisvinna. Trúið mér þið sem ekki hafið prófað eða starfað sem pokadýr í utanlandsferðum. Það er fátt meira lýandi. Ég fer endrum og sinnum í moll en það er þá bara Kringlan og ferðin tekur mig 15 mínútum meira en aksturinn þangað. Þegar ég fer í moll þá fer ég í verslunarferð en ekki skoðunarferð. Veit hvað ég vill og fer bara inn og út.
Ég byrjaði daginn á því að fara út á svalir og kíkja til veðurs. Mér til skelfingar sá ég að það var alskýað í Benirife þennan mánudagsmorgun. Þetta voru sannkölluð óverðusský og ég vissi að ef ekki rættist fljótlega úr þá væri ég í verulega vondum málum. Vissulega var búið að afgreiða mollið en þá verður það bara kraftganga um strandveginn eða ferð í líkamsræktina í staðinn. Ég gat ekki hugsað mér að ganga aftur í gegnum mauraþvögurnar á strandveginum og enn síður að fara í líkamstæktina á hótelinu. Ég læddist inn af svölunum og gætti þess að loka svalahurðinni varlega.
Ég mátti ekki hætta á að vekja sólardýrið á meðan skýin réðu ríkjum. Ég var rétt lagstur upp í rúm aftur og búinn að opna bókina mína þegar ég heyrði sagt við hliðina á mér:
“Er sól?”
Hún var vöknuð. “Svona með köflum.” Laug ég.
“Ekki segja mér að það sé ekki sól. Ég trúi því ekki.”
“Bara nokkur ský. Þau verða örugglega farin um hádegisbil.” Svaraði ég
Eins og elding snaraðist hún fram úr rúminu og út á svalir. Ég heyrði bara “shitt” og síðan kom hún nöldrandi inn aftur. “Það er alskýað. Þetta er ótrúlegt.”
Áður en ég náði að komast aftur fram úr rúminu var hún búin að klæða sig í stuttbuxur, íþróttbol og hlaupaskó. “Þá er bara kraftganga eftir ströndinni.”
“Nei.” Ég var alveg ákveðinn. “Ég ætla í morgunmat og síðan ætla ég að slappa af.”
“Slappa af!” Hún fussaði og svei-aði. “Hvað heldur þú að það sé hægt að slappa af í svona veðri. Ætlarðu að hanga hérna inni?”
“Nei ég ætla bara að fá mér bjór, setjast út á svalir og kíkja í bókina. Það kallast að slappa af. Ekki að hlaupa eins og kanína upp og niður ströndina. Það er bara erfiðisvinna.”
“Allt í lagi. En ég ætla í göngu.” Svaraði hún og eftir morgunmat á hótelinu sá ég á eftir henni inn í mauraþvöguna á strandveginum þar sem hún hvarf sjónum mínum.