Gönguferðin á íslenska barinn á Adeje ströndinni sannfærði mig endanlega um að skoðun mín á Tenerife er rétt. Við rannsóknir mínar á þessum vinsælasta viðkomustað sólardýrkandi ísledninga er ég búinn að ganga strandveginn frá Los Christianos, yfir í Adeje og nokkra kílómetra upp frá ströndinni og ég hef passað sérstaklega vel upp á að vera ekki edrú.
Hótelin standa í röðum við ströndina, flest að lágmarki 10 metrar á hæð og með nokkur hundruð (eða jafnvel þúsund) íbúðum hvert. Við strandveginn liggja síðan engispretturnar hver ofan í annarri, sólbrunnar eða brúnar og vel tattóveraðar í sundlaugargörðum hótelanna. Svolítið skrítin tilfinning að horfa á þær í gegnum vírgirðingarnar. Eins og þær séu til sýnis fyrir túristana. (Til samanburðar getur maður ímyndað sér tjaldstæðið á Flúðum um verslunarmannahelgi þar sem hvert hjólhýsið er uppi í rassgatinu á öðru. Hér eru það bara túristar á sólarbekkjum.)
Á jarðhæðum hótelanna og í smáhýsum við strandveginn er urmull veitingastaða, tuskubúða og lundabúða og við hvert skref sem maður tekur stígur einhver fyrir mann til að reyna að fá mann til að setjast inn á einhvern veitingastaðinn. Eins og það sé ekki nógu mikið áreiti þá eru sölumenn á hverju strái að bjóða falsaðar tískuvörur eins og úr, teppi og töskur. Maður getur ekki einu sinni sest niður á ströndinni án þess að þurfa að afþakka sölutilboð óteljandi sinnum og síðan gengur þetta í hring. Þeir koma aftur og aftur og aftur og aftur og eru að þangað til allir túristarnir eru sofnaðir.
Sem sagt, Tenerife er ansi líkur staður og Benidorm. Eini raunverulegi munurinn er líklega sá að hér er meira af ellismellum en klassinn er samt svipaður. Ég man ekki eftir því að hafa séð töskusölumenn á hverju strái þegar ég fór til Orlando eða á Mykonos. Þar var ekki þetta ofboðslega áreiti um leið og maður hætti sér út fyrir hótelið. Kannski er þetta bara eitthvað sem er komið til að vera alls staðar þar sem maður fer og spurning hvort verslunareigendur við laugaveginn og í Kringlunni ættu ekki að taka sér þetta til fyrirmyndar. Vera með fólk úti á götu eða á göngunum sem stoppar þig og reynir að draga þig inn til sín til að kaupa eitthvað?
Þrátt fyrir þetta þá finnst mér fínt að vera hérna. Hér eru innan um frábær veitingahús þar sem maturinn kostar “ekki neitt” í samanburði við Ísland, veðrið er fínt og ef maður hellir nógu miklu af bjór ofan í sig, passar upp á að Alla fái næga sól og heldur sig frá ströndinni þá getur maður meira að segja slappað af.
Þegar allt kemur til alls þá er munurinn á Benidorm og Tenerfie sá að hingað er aðeins lengra að fara og eins og er hafa ellismellirnir vinninginn yfir tattóveruðu bretana. Þess vegna kallast þessi staður hér eftir í mínum huga einfaldlega Benirife.