Ég vaknaði hress og kátur fyrsta morguninn minn á Tenerfie. Svefninn hafði gengið áfallalaust fyrir sig og ég man ekki einu sinni eftir að hafa heyrt eina hrotu frá henni Öllu minni sem gengur nú oftast eins og Massey Fergusson á nóttunni.
Framundan var morgunverður á hótelinu og síðan möguleg herbergjaskipti. Það er nefnilega þannig að þó að herbergið okkar sé frábært í alla staði þá er skuggi á svölunum frá morgni til kvölds og þegar maður er með sólardýri á ferðalagi þá hreinlega gengur það ekki upp. Sólin þarf að vera alls staðar ef hún er í boði á annað borð. Það þýðir ekki að fara út í garð í sólina og koma síðan inn í skuggann. Allt var sett af stað og ferðasérfræðingur fjölskyldunnar, systir mín hún Ingiveig, var sett í málið. Niðurstaðan var sú að okkur var boðið að flytja í annað herbergi síðar um daginn ef við værum sátt við það eftir skoðun. Sólardýrið fór síðan, skoðaði herbergið og samþykkti svo að í hönd fóru flutningar á milli herbergja.
Þegar ég var búinn að taka upp úr töskunum í annað sinn á þessu ferðalagi og ætlaði að slaka á í sólinni á nýju fínu svölunum mínum stóð sólardýrið upp og sagði. “Klukkan er orðin tvö. Eigum við ekki að skreppa í smá göngutúr eftir ströndinni?”
Ég var nýbúinn að hella köldum bjór í glasið mitt og var að passa upp á að froðan lenti ekki annars staðar en uppi í mér þannig að ég svaraði strax: “Jú jú.”
Þar sem að ég er svona næsti bær við albinóa þá klæddi ég mig vel til að hlífa líkama mínum fyrir sólinni og einnig rokinu sem er talsvert hér um þessar mundir. Ég hef ekkert á móti albínóum og vona að ég móðgi engan en staðreyndin er bara sú að ef ég væri með rauð augu þá væri ég líklega kallaður Tóti Albínói. Ég er íslendingur og hef sem slíkur passað upp á að halda mínum hvíta húðlit. Þannig er ég eins og jöklarnir á Íslandi og snjórinn á götunum og ég er stolltur af því. Þess vegna þarf ég að passa mig einstaklega vel þegar ég er í sólinni til að eyðileggja ekki hvíta litinn.
Gönguferðin eftir ströndinni breyttist fljótlega í háflgerða kraftgönguferð sem er svo sem skiljanlegt þegar maður er á ferðinni með ofvirkum einstakling sem þarf að ganga eitthvað á hverjum einasta degi. Ef ekki í ræktinni þá yfir allt Seltjarnesið og til baka. Mér tókst þó eftir stutta stund að hægja á henni sem var eins gott því að mig var farið að verkja í allan skrokkinn af áreynslunni. Ég er nefnilega ekki bara hvítur íslendingur ég er líka svona inni-íslendingur og fyrir mér er líkamsrækt eitthvað sem er mjög hættulegt að stunda.
Eftir klukkustunda langa þrekraun þar sem ég þurfti að handlanga sjálfan mig í gegnum þúsundir af túristum komum við að stórum vegamótum.
“Förum upp þessa götu og snúum við þarna á gatnamótunum.” Sagði Alla og benti upp götu sem var svona svipuð og Öskjuhlíðin á hæð.
Þó að mér listist illa á brekkuna var til í það enda kominn með nóg af því að ganga í eina átt og troða mér í gegnum túristaþvögurnar. Upp götuna var arkað og þegar á topinn var komið blasti við okkur bygging með stóru skilti sem á stóð “San Eugenio Shopping Center”. Ég tók strax skrefið til hægri í átt frá bygginunni en það var of seint. Mín var búinn að koma auga á skiltið. “Nei þarna er moll.” Sagði hún og brosti út að eyrum.
“Þetta er bara verslunarmiðstöð.” Sagði ég í von um að hún missti áhugann.
“Nei þetta er moll. Kíkjum aðeins þarna inn.” Sagði hún. “Kannski er H&M þarna?”
Ég er orðinn eldri en tvívetra í þessum efnum og vissi að ekki myndi þýða að mótmæla svo að yfir götuna var arkað og inn í verslunarmiðstöðina. Ég hafði auðvitað haft rétt fyrir mér. Þessi verslunarmiðstöð var bara útibú frá strandbúðunum.
“Það hlýtur að vera H&M hérna einhversstaðar.” Sagði Alla þegar við gengum til baka yfir götuna.
“Nei það er örugglega langt í burtu.” Sagði ég, feginn því að hafa sloppið við að elta hana fram hjá hverri fataslánni eftir annarri.
“Kannski en það á að vera moll hérna einhvers staðar.” Sagði hún og skimaði upp götuna.
“Ha. Af hverju segirðu það?” Spurði ég. Mig var farið að gruna að gönguferðin hafi í raun átt að vera ferð í mollið.
“Nei ég bara hef það svona á tilfinningunni. Ég meina það hlýtur að vera moll hérna einhvers staðar?
Enn ein árangurslausa moll ferðin var nú senn á enda og við tók klukkutíma kraftganga til baka í gengum túristaþvögurnar. Fyrir íslending eins og mig sem er í herfilegu gönguformi var ferðin til baka eins þægileg og að ferðast um í bíl ef hún er borin saman við ferð í mollið. Það skipti mig engu máli þó að ég þyrfti að troða mér í gegnum hverja túristaþvöguna á fætu annarri. Ég gerði það með bros á vör þó að ég vissi það innst inni að ferð í mollið yrði óumflýanleg á endanum.