Það er svolítið sérstakt að vera á Tenerife á þessum árstíma. Ekki er hægt að stóla á að sólin skíni alla daga og síðan er maður eins og unglingur innan um alla ellismellina. Ég er nokkuð viss um að ég hafi verið yngstur af fullorðna fólkinu í flugvélinni á leiðinni hingað út og meirihlutinn á hótelinu okkar er svona 80 plús.
Mér finnst reyndar frábært að sjá gamla fólkið skemmta sér og slaka á en hitinn mætti vera hærri og svei mér þá ef það væri ekki bara kostur ef sólin léti sjá sig alla daga. Því meiri sól getur nefnilega verið það besta fyrir mann eins og mig.
Dagurinn í dag hófst í sól og blíðu og eftir morgunmat var haldið út á ströndina við hótelið þar sem hitt gengið dvelur. Ég ákvað að vera smá kærulaus í klæðaburðinum og fór í stuttbuxurnar þannig að leggirnir ásamt andlitinu voru berskjaldaðir fyrir geislum sólar. Við vorum nú varla sest á sólarbekkinn á ströndinni þegar þessi svakalegi skýjabakki kom yfir ströndina og lokaði fyrir sólina. Núna vissi ég að voðinn var vís. Ef ég hefði kunnað sólardans hefði ég stigið hann þarna á ströndinni sem aldrei fyrr en því miður hef ég enga þekkingu á slíkum dönsum.
“Moll í dag.” Stundi Alla um leið og hún reis upp af bekknum eftir nærandi nudd sem hún hafði nýlokið við að fá frá einni af þeim fjölmörgu nuddkonum sem bjóða upp á þjónustu sína á ströndinni.
“Nei eigum við ekki að bíða aðeins.” Sagði ég. “Þessi ský fara örugglega að fara eitthvað annað.” Ég leit vongóður til himins en ef eitthvað var þá voru skýin bara dekkri og drungalegri að sjá.
“Við sáum H&M og Intersport hérna rétt fyrir ofan þegar við vorum í leigubílnum í gær.” Sagði Guðrún. “Við getum kíkt þangað. Þar er líka Starbucks.”
Þetta var farið að líta illa út og ég sá fram á að dagur pokadýrsins væri runninn upp.
Við héldum til baka á hótelið til að búa okkur undir ferðina í mollið og á leiðinni sönglaði ég í huganum “sól sól skin á mig, ský ský burt með þig”, en allt kom fyrir ekki. Ekki kom sólin og örlög mín voru ljós þegar við settumst upp í leigubílinn á leið í mollið. Mollið var nú ekki stórt og mikilfenglegt eins og ég hafði óttast heldur verslanamiðstöð á stærð við Glæsibæ. Það hafði samt engin áhrif og hver einasta flík í H&M var skoðuð áður en haldið var í Intersport. Það varð mér síðan til lífs að nokkrar verslanir voru lokaðar vegna síestu. Frábær þessi siesta en verst að hún er ekki í öllum tuskubúðum allan daginn.
Niðurstaðan varð þó sem betur fer þannig að ég þurfti aðeins að bera 2 poka þennan daginn. Á göngunni heim á hótel furðaði ég mig reyndar á minni eigin heimsku. Ég sem núorðið er kominn með meistaragráðu sem pokadýr er svo vitlaus að fatta ekki að afla mér upplýsinga fyrir fram. Auðvitað átti ég að vera búinn að kanna hvar hvert einasta moll er statt á Tenerife, hvenær það er opið, hversu stórt það og hvaða búðir eru þar innandyra. Þá gæti ég einfaldlega stýrt ferðinni í stærsta mollið og klárað þetta dæmi á einum degi. Auðvitað þyrfti ég þá að bera tíu poka en ekki tvo en það er betra að bera tíu poka einu sinni en tvo poka fimm sinnum. Í framhaldi af þessu vaknaði sú hugmynd í kollinum á mér hvort það sé ekki kominn tími til að stofna verkalýsðfélag pokadýra. Við gætum t.d. sett fram þá kröfu að þurfa að hámarki að bera tvo poka í hvorri hendi í hverri ferð. Verði reynt að koma fleiri pokum á okkur yrði viðkomandi eiginkona að fórna einni ferð í moll fyrir hverja tvo poka sem bættust við. Þetta er bara svona hugmynd en ég held að við sem erum pokadýr nokkrum sinnum á hverju ári verðum að fara að gæta réttar okkar.
Á morgun tekur við nýr dagur með öðrum ævintýrum og ég mun biðja þann sem öllu ræður um að láta nú blessaða sólina skína sem aldrei fyrr.