Í gærmorgun þurftu sólardýrin að vakna kl. 7 þar sem þau voru skráð í strandferð í Cozumel. Að vera sólardýr í svona ferð er mikil vinna. Þú þarft að vakna snemma, ná þér í bekk úti á þilfari og liggja þar næstu 8 tímana.
Það er reynar afslappandi að liggja á sólarbekk í 8 tíma en þegar vinnan við að smyrja á sig sólarvörn, drekka Pina Colada, Margarítu eða bjór, borða morgun og hádegismat að ógleymdum kaffitímum er tekin með í reikninginn verða meira að segja sólardýrin þreytt í lok dags. Þess vegna gerðist það þennan morun að þau sváfu yfir sig og þá voru góð ráð dýr. Ekki máttu þau missa af rútunni á ströndina svo að
þau sprettu úr spori í átt að landganginum á skipinu. Þegar þau voru búin að skrá sig í land tók Alla eftir manni á hjóli sem var með vagn aftan í. Hún hugsaði sig ekki tvisvar um heldur rauk af stað, stökk upp í vagninn og æpti á manninn: “Hurry, hurry, go go.” Manngreyið hrökk í kút og hjólaði af stað eins og lífið lægi við. Svava stóð eftir við landganinn og kallaði á eftir Öllu: “Þú veist að þú þarft að borga honum?”. Eina svarið sem hún fékk voru köllin í Öllu.: “Hurry, hurry, i am loosing the bus. Go hraðar, go hraðar.”
Það voru ánægð sólardýr sem komu til baka til skips í lok ferðar og pokadýrið var mjög sátt við daginn enda höfðu engin átlett verið í sjónmáli. Hannes og Inga voru síðustu sólardýrin um borð sem er í sjálfu sér ekkert skrítið þar sem um Facebook og nudd-fíkla er að ræða. Það sást til Ingu ráfandi um ströndina í leit að einhverjum sem var tilbúinn til að nudda hana fyrir 10 dollara en það er mikið prúttað í Mexíkó. Hún fann loks einn nuddara sem tók að sér verkið fyrir 15 dollara. Á sama tíma bárust fréttir af Hannesi þar sem hann ráfaði á milli kaffihúsa á ströndinni í von um að finna frítt net. Honum tókst það að lokum og það voru sæl og glöð hjón sem komu til baka um borð rétt fyrir brottför.
Í gær var “formal” kvöld númer tvö í þessari ferð. Allir klæddir í sitt fínasta púss og hópurinn fór að borða á Crown Grill. Steikurnar þar eru ekkert venjulegar. Mín Porterhouse T-bone steik náði yfir allan diskinn enda 16oz að þyngd. Þetta var erfitt en það hafðist að lokum að innbyrða hana nánast alla og Jói, sem var með eins steik, var búinn að missa alla tilfinningu í vörunum þegar hann hafði lokið við sína. Hann hafði það á orði að núna vildi hann fá koddann sinn.
Við siglum núna á 32km hraða í átt til Fort Lauderdale. Það er 28 stiga hiti og sól úti á dekki þar sem sólardýrin hafa komið sér vel fyrir. Alla og Svava hafa reyndar varla tíma til að liggja í sólinni heldur sitja þær oft á bekkjunum og spjalla við fólkið á næstu bekkjum. Alla er farin að þekkja flesta þarna með nafni og hún veit mjög mikið um hagi þeirra. Hver er búin að missa hvað, skilja, fara í afvötnun og svo framvegis. Hún áttar sig reyndar ekki alltaf á því að fólkið skilur ensku og á það til að segja við Sövu háum rómi: “Þessir hérna við hliðina eru sko örugglega gay people.” Eða “Þessir ameríkanar við hliðina á þér eru sko svo sannarlega owerweighted”
Skipið mun leggja að bryggju í Fort Lauderdale um kl. 5 aðfararnótt Páskadags. Þá er framundan hjá okkur sólarhringsferðalag heim til Íslands með viðkomu í Boston. Okkur skilst að þar sé hitastigið einhversstaðar í kringum frostmark. Frábært.