Kvöldið í gær var skemmtilegt. VIð borðuðum á hlaðborðsstaðnum á 16. hæð. Gott ef ég fékk ekki besta matinn í ferðinni hingað til? Úrval af Inverskum réttum á færibandi. Rosalega gott. Þegar allir voru búnir að borða yfir sig var haldið út á dekk þar sem setið var að spjalli með kokteil í hönd.
Vinir okkar frá L.A. bættust í hópinn og Alla sá sig knúna til að ræða við þá um sjóriðu. Það er tilfinning sem maður finnur stundum fyrir þegar maður kemur á land. Þá gengur maður svolítið eins og maður sé drukkinn sem er svo sem allt í lagi í svona ferð. Alla var ekki alveg klár á þýðingunni og sagði: “You know about the seafuck….”
Hún og Svava eru nú reyndar með þýðingarnar nokkurn veginn á hreinu. Eins og: “I will have eina kók takk.” “Where are you frá?” “I will taka eitt like this.” “We are from Ísland.” “Do you have tenstick?” “I am wery hot today?” “Do you have humar?”
Um kvöldið var “latino” partý úti á dekki þar sem danshljómsveit skipsins spilaði fyrir dansi og var mikið fjör fram að miðnætti þegar sólardýrin þurftu að ganga til náða þar sem þau voru búin að kaupa sér miða í strandferð snemma morguns hér í Cozumel. Ég ákvað að vera eftir um borð þar sem sólin hefur ekki farið vel með húðina mína síðustu daga. Sólardýrin náðu þó að plata Jóa með sér enda nauðsynlegt fyrir þau að það sá alla vega eitt pokadýr með í hópnum ef þau skyldu rekast á átlett í landi. Þessi átlett virðast elta mann hvert sem er en ég sá eitt út um gluggann á rútunni i Costa Maya í gær. Það var þó sem betur fer í niðurnýslu og lokað.
Ég sit núna úti á dekki og virði fyrir mér skemmtiferðaskipin sem eru hér í höfn en þau eru óteljandi. Það eru ský himni sem getur varla talist gott fyrir sólardýrin. Svolítið fyndið en samt alveg dásamlegt. Ég sé alveg fyrir mér svipinn á þeim á þessari stundu þar sem þau færa sig eftir ströndinni í leit að rifu á milli skýjanna. Skýin eiga reyndar eftir að koma sér vel fyrir Jóa sem er mjög illa sólbrunninn á nefinu sem er eldrautt eins og jarðarber. Hann er búinn að vera í einhverskonar stríði við sólina. Stríði sem er því miður löngu tapað en eins og víkingum sæmir þá ætlar hann ekki að játa sig sigraðan fyrr en í fulla hnefana. Það er bara sólarvörn á kroppinn, hattur á hausinn og nefið er hulið með hvítum klósettpappír. Þetta sólbrunaástand minnir mig á eitt gamalt ráð sem íslendingar notuðu á Costa Del Sol í gamla daga. Þá var ein flaska af rommi keypt, helmingurinn innbyrtur og hinn borinn á líkamann. Ég prófaði þetta aldrei en sögurnar sögðu að verkunin væri góð.
Framundan er rúmlega sólarhrings sigling til Fort Lauderdale en við verðum þar að morgni Páskadags. Í kvöld er svokallað “formal” kvöld á skipinu þar sem allir klæða sig í sitt fínasta púss. Við erum að fara að borða á “crown grill” sem er steikarstaður skipsins. Ég hef farið þangað áður og veit hvað býður mín. Nautasteikur á stærð við 12 tommu pítsu, humar og annað góðgæti.