Sólardýrin tóku daginn snemma til að vinna fyrirfram upp sólartapið sem framundan var vegna fyrirhugaðrar skoðurnarferðar inn í frumskóginn að fornum Maya rústum. Skoðunarferðin hófst um hádegisbil með klukkutíma rútuferð inn í land.
Leiðsögumaðurinn var innfæddur mexíkani sem talaði stanslaust í klukkutíma án þess að ég skildi nema þriðja hvert orð sem hann sagði. Það skipti svo sem engu máli þar sem útsýnið úr rútunni var nóg. Merkilegt að sjá húsin og sölubásana við þjóðveginn þar sem innfæddir seldu ananas. Áður en lagt var af stað inn í skóginn fór allur hópurinn í einhverskonar “skordýraeiturs sturtu”. Allir úðuðu
eitrinu fyrir sig og ég náði varla andanum þar sem ég stóð inni í myðju skýinu. Gönguferðin inn í skóginn að rústunum var athyglisverð og heit. Líklega um 40 stiga hiti og rakinn eftir því. Þarna eru engar árstíðir. Alltaf sama veðrið allan ársins hring. Rústirnar voru um margt merkilegar, hlaðin, mishá musteri þar sem Mayar færðu guðunum fórnir. Oftast mannfórnir. Talið er að nokkur hundruð borgir séu enn óuppgrafnar í skóginum sem sá Mayum fyrir öllu sem þeir þurftu á að halda. Mat, frjóum jarðvegi, lyfjum og vatni.
Við erum búin að bralla margt á skipinu, smakka alla kokteila sem í boði eru og finna út hvaða kokteill hentar mismunandi tímum dagsins. Við erum búin að fara í leikhúsið flest kvöld þar sem í boði eru Brodway sýningar og einnig koma einstaka skemmtikraftar fram. Um daginn sáum við einn sem heitir Travis Turpin, fyndinn náungi og hæfileikaríkur sem ólst upp í einhverskonar “Osmond” fjölskyldu þar sem allir spila á eitthvað hljóðfæri og syngja. Hann er líka með uppistand á sýningunum sínum og á þeirri sem við fórum á sagði hann okkur að hann vildi alls ekki við værum eitthvað “starstruck” ef við myndum rekast á hann á skipinu. Það sem hann vildi að við gerðum væri að kalla á hann og segja: “Hi Travis. Can I buy you a drink.”
Í lok sýninganna í leikhúsinu stígur Martyn, skemmtanastjóri skipsins á svið og reytir af sér brandara ásamt því að segja okkur frá viðburðum næsta dags. Sá er breti, hress og skemmtilegur.
Það var síðan í lok skoðunarferðarinnar þegar Hannes og Inga voru að koma aftur um borð í Costa Maya að Hannes sér kunnulegan mann fyrir framan sig. Hannes brosir og segir: “Hi Travis. Can I buy you a drink?” Maðurinn snýr sér þá við og svarar alvarlegur á svip: “No. I am Martyn.” Hannes varð kjaftstopp þar sem hann stóð fyrir framan skemmtanastjórann og það eina sem honum datt í hug að segja var: “Have you been to Iceland?”
Hér á skipinu er einnig keppni sem heitir “The Voice of the sea.” Það er karaókíkeppni þar sem farþegar keppa sín á milli. Við kynntumst tveimur þeirra um daginn, hjónum frá LasVegas, en þeir tóku báðir þátt og komust báðir í úrslit keppninnar sem fram fer annað kvöld, laugardagskvöld. Þeir eru búnir að bjóða okkur sem VIP gestum. Annar þeirra eru afríkanskur ameríkani og hinn er alveg eins og Ben Stiller. Sá er skólastjóri í menntaskóla í LasVegas og hinn er kennari í sama skóla. Hressir náungar.
Sambandið við umheiminn er ekki gott frá skipinu sem er gott mál í sjálfu sér. Við getum komist á netið en það er dýrt og sambandið eins og það var í árdaga internetsins. Hriklalega hægt. Hér kaupir maður einhverjar mínútur á netinu og “skýst” inn á það til að gera það sem maður þarf að gera. Þetta ástand er mjög slæmt fyrir Facebook fíklana í hópnum þau Hannes, Svövu og Öllu. Þegar við förum í land þá eru þau alltaf öll með símana uppi, halda þeim hátt á lofti starandi á skjáinn og síðan heyrir maður reglulega: “Hey það er netsamband hér. Ó það datt út.” Og síðan er gögnunni haldið áfram þar til opið net finnst. Þá sér maður sælubrosið á andlitum þeirra og þau hverfa inn á Facebook. Algerlega meðvitundarlaus fyrir öllu nema símanum sínum. Þau taka síðan símana með sér á kvöldin inn í skipið þar sem þau taka upp vídeó og eitthvað sem heitir “snap” til að vera klár með það þegar netsamband finnst í næstu höfn. Síðan renna þau í gegnum facebook appið í símunum sínum og lesa gamla statusa. Það er eins og þau róist aðeins við það.