Ég vaknaði snemma eins og vanalega og við mér blasti skýjaður himinn. Það fór smá ónotahrollur um mig en síðan róaðist ég aðeins þegar ég vaknaði betur og áttaði mig á því að ég væri á skipi en ekki í Orlando innan um hryllingsbúðir og átlett.
Það versta sem ég gæti lent í þennan daginn væri að þurfa að spila félagsvist eða eitthvað slíkt. Það var þó skárra en að taka aftur við sem pokadýr. Ég ákvað að laumast upp á 17 hæð og fá mér einn kaffibolla áður en Alla vaknaði og eins og venjulega tólk ég skipsblað dagsins með mér. Um leið og ég opnaði blaðið tók ég eftir innblaði sem flennistórum fyrirsögnum um verslunartækifæri
á Grand Cayman. Það er ljóst að maður er hvergi óhultur. Ég er eiginlega búinn að gefast upp. Það er eins og þessar búðir hreinlega elti mann hvert sem maður fer. Mín eina von var að henda þessum auglýsingabæklin og vona að Alla væri spennt fyrir landgöngu eða í versta falli félagsvist.
Eftir að hafa losað mig við auglýsingapésann hélt ég af stað niður í skip aftur.
Grand Cayman er svolítið merkilegur staður. Ekki fyrir alla 300 bankana sem þar eru og ekki heldur vegna þess möguleika að þar séu margir milljarðar af útrásarvíkingagóssi geymdir. Grand Cayman var fyrr á öldum einn aðal samastaður sjóræningja, liðhlaupa frá Jamaica og skipreka sjómanna. Cayman eyjar verða líka reglulega fyrir barðinu á fellibyljum og olli sá síðasti þeirra skemmdum á 95% húsnæðis á eyjunum.
Hópurinn ákvað að taka stuttan göngutúr um eyjuna og það var fátt sem vakti mikla athygli. Snyrtilegur staður og lítið áreyti frá heimamönnum. Reyndar er réttast að segja að áreitið hafi verið mest frá öðrum ferðamönnum en 7 stór skemmtiferðaskip lágu úti fyrir ströndum eyjunnar. Þessi upplifun var fyrir mig svolítið lík þeirri þegar ég fór í skoðunarferð til Rómar fyrir 2 árum. Það sem maður sá mest af þar voru aðrir ferðamenn.
Núna erum við lögð af stað frá Grand Cayman eyjum og er áfangastaðurinn Costa Maya í Mexíkó. Þar ætlum við í skoðunarferð að skoða Maya rústir.
Þessi sjóferð er búin að vera frábær hingað til. Það getur reyndar verið svolítið þreytandi að vera á svona skipi. Maður getur borðað endalaust og nánast hvenær sem er sólarhringsins. Jói hefur haft á orði að hann þurfi líklega að láta leggja sig inn þegar hann kemur heim til að hann geti jafnað sig. Ég sá hann á netinu í gær að skoða einhverjar síður með upplýsingum um fitusog. Síðan eru það drykkirnir. Auðvitað vatn, djús, kaffi, Cappuchino, bjór, Rommkokteilar, vodkakokteilar, ginkokteilar, viskí, koníak, rauðvín, hvítvín, rósavín og svo frv. Dagarnir líða áfram hægt og rólega og einu áhyggjurnar sem maður hefur fyrir utan það að Alla týnist á skipinu, eru hvað maður á að borða þá stundina og með hverju sé best að skola því niður.