Dagur 5
Þegar maður belgir sig út af bjór verður maður ekki drukkinn heldur mikið frekar kærulaus. Tilfinningin i tungunni er eins og hún sé aðeins þykkari og pínulítið loðin. Þá kemur fram þessi þörf að hreyfa og nota tunguna og maður fer að blaðra einhverja vitleysu.
Síðan kemur þetta svakalega kæruleysi í kjölfarið og maður lætur teyma sig hvert sem er. Ég get meira að segja svarið að ef maður drekkur svona eins og eina kippu af bjór á dag þá þarf maður ekki að raka sig í viku. Skeggrótin leggst einfaldlega í dvala og maður fer svona ósjálfrátt að leita að hárbustum um alla íbúð. Það er bara verst hvað bjórinn er góður.
Í raun er þetta ekkert fyndið. Þetta er háalvarlegt ástand sem getur haft alvarlegar afleiðingar. Það er háalvarlegt mál að ég hafi tekið mig til og gengið í 15 mínútur út í eitthvað átlett að kaupa föt. Ekki bara nærbuxur og sokka sem eru yfirleitt einu vörurnar á mínum innkaupalista í svona ferðum, heldur buxur og bol, jakka og skyrtur. Hvað er að gerast. Spurning hvort maður geti látið bólusetja sig fyrir átlettum?
Hvað um það. Þegar ég var búinn að kaupa tuskurnar var sest niður á matartorginu í átlettinu til að borða. Núna var það kínverskt en ekki hamborgari sem var ágætt. Ég tímdi reyndar ekki að kaupa mér bjór þrátt fyrir mikla hvatningu frá eiginkonunni. Ég held að það hafi færit mér vitið aftur og ég flýtti mér að skófla matnum ofan í mig svo að ég gæti flúið þennan stað sem fyrst.
Um kvöldið var haldið á “Long Horn” steikhúsið og í þetta sinn var tekinn leigubíll. Leigubíllinn var Chervrolet Suburban sem mátti muna fífil sinn fegurri og bílstjórinn var ung kona á mínum aldri frá Haiti. Alla var komin í stuð og áður en við náðum á leiðarenda vissi hún allt um hagi leigubílstjórans. Hún sagði síðan við hana áður en við fórum út úr leigubílnum að henni fyndist “svartar konur eins og hún allar líta út eins og Whoopi Goldberg”. Þarna settum við hin eina reglu. Alla mátti ekki tala meira í leigubílum.
Maturinn var frábær og drykkirnir líka og kostnaðurinn lægri en búast hefði mátt við. Svava naut sín vel og eftir matinn spurði hún þjóninn hvort hún gæti fengið “ten stick”. Hún ætlaði að segja “tændstick” af því að hana minnti að hún væri í Noregi! Þarna var ég farinn að óttast að sólardýrin væru búin að hella of miklum vínanda ofan í sig og að framundan væri leigubílaferð eins og í gamla daga. Í þá daga þá koma það fyrir þegar við Alla sátum saman í aftursætinu á leigubíl eftir skemmtiferð í Holly eða Klúbbinn að mín hallaði sér fram og sagði við leigubílstjórann: “Heyrðu, ég þekki þennan mann ekki neitt. Ertu til í að bjarga mér”. Óttinn reyndist ástæðulaus, Alla var sett í aftasta sæti í leigubílnum og sólardýrin voru stillt á leiðinni niður á hótel.
Meðfylgjandi mynd er af Öllu að naglalakka á sér tærnar fyrir utan steikhúsið.