“Como estas.” Alla brosti fallega framan í ungu konuna í heita pottinum í sundlauginni á Egilsstöðum. “Se encuentran de España?”
Konan brosti vandræðalega til baka.
“Ó are you not from Spain?” Spurði Alla sem var nýbúin að ræða við spænska ferðalanga í heita pottinum.
“Sorry, I don´t understand.” Svaraði konan.
“Ó no problem.” Alla brosti. “Where are you from?”
“I am from Iceland.” Svaraði konan.
Annars er sundlaugin hérna fín og mikið notuð af túristum. Íslendingar eru sjaldséðir a.m.k. þegar við förum í sund. Sama á við um tjaldsvæðið. Þar eru kannski 80% gestanna erlendir.
Annars er veðrið búið að vera fínt hérna (eins og meðfylgjandi mynd sýnir). Eiginlega of fínt fyrir mig en þegar ég er á ferðalagi með henni Öllu minni og sólin lætur sjá sig þá breytist mitt hlutverk úr því að vera ferðafélagi í að vera einhverskonar sundlaugarstrákur. Hún hefur ekki tíma í neitt nema að láta sólina baka sig og ég þarf að sjá um eldamennsku og þrif og passa upp á að færa henni drykki, sportlunch og bera á bakið á henni. Ég gæti alveg breytt nafninu í “Pepe” og ef ég kynni eitthvað annað í spænsku en “Una cerveza, por favor” þá væri hún babblandi við mig allan daginn. Til þess að losna út þessu starfi í gær stakk ég upp á því að við færum inn í Gunnhildargerði (æskuóðal tengdamömmu hér í sveitinni) að slá grasið í kringum húsið. Þar er nefnilega hálfsmetra vaxið gras um allt og erfitt fyrir tengdamömmu að komast um svæðið. Það varð úr og ég fór og leigði risastórt sláttuorf og hafist var handa við sláttinn. Ég taldi mig nú fullfæran í að brúka svona tæki og slá þetta gras á nokkrum mínútum. Eftirá að hyggja þá hefði ég frekar átt að halda áfram sem Pepe og kreista sólarvarnarbrúsa.