“Hægðu á þér. Það er bíll! Það er bíll þarna! Passaðu þig á beygjunni! Guð minn góður. Það er brekka! Viltu hægja á þér maður! Stoppaðu bílinn. Ég ætla að labba! Sérðu hvað þessi keyrir varlega!”
Þetta er bara ofurlítið sýnishorn af þeim orðaflaum sem skellur á mér þegar við förum í ferðalag. Ég er með þykkan skráp og þoli þetta svona yfirleitt en með aldrinum hefur þetta því miður farið versnandi. Ég heyri ný orð eins og: “Þú ert ökuníðingur “ , “Ég vona að löggan stoppi þig” og Á bara að drepa mann hérna!”. Ég
er hættur að taka þessi orð til mín enda ek ég yfirleitt á löglegum hraða. Ég er nefnilega búinn að læra það að það skiptir litlu máli þegar ferðast er um langan veg hvort maður ekur á 90 eða 110. Ferðatíminn styttist ansi lítið vegna þess að það er meðalhraðinn sem skiptir máli. Maður lendir fyrir aftan hægfara bíla, það eru einbreiðar brýr á leiðinni og bæir að aka í gegnum.
Það er samt svolítið gaman að “kítla” pinnann af og til, og það er eiginlega nauðsynlegt þegar maður er kominn á sextusaldurinn og hver dagur skemmtilegri en sá síðasti. Þá setur maður Toyotuna á bílasölu og leyfir sé að kaupa almennilega bíla sem láta heyrast í sér þegar þeim er gefið inn. Svoleiðis bílar eru yfirleitt með mílumælum sem eru mjög sniðugir fyrir menn eins og mig. Eða kannski réttar sagt, voru mjög sniðugir. Það var nefnilega þannig að þegar ég eignaðist bíl með “mílumæli” þá horfði mín á mælinn og sá að ég var á 60 án þess að fatta að um mílur væri að ræða en ekki kílómetra. Það var þess vegna friður og ró í bílnum þangað til einhver kjaftaði frá og útskýrði fyrir henni að 60 mílur væru um 100km. Þá var friðurinn úti. Síðan gerðust þau undur og stórmerki að snjallsímar komu til sögunnar. “Lof sé þeim sem þessu stýrir” segi ég nú bara. Mín á facebook í bílnum og allt í ró og spekt. Maður sættir sig meira að segja við að það séu tekin einhver “snöpp” af manni við stýrið (hvað sem það nú er). Taumlaus gleði og ánægja ríkjandi með tilheyrandi hlátrarsköllum yfir sniðugum myndum eða statusum af Facebook.
Þess vegna skiptir það höfuðmáli fyrir mig að passa upp á að síminn hennar sé fullhlaðinn áður en lagst er í ferðalög og bíllinn búinn þeim hleðslumöguleikum sem til þarf til að halda símanum gangandi.
Á þessu ferðalagi okkar hingað austur í land lærði ég síðan aðra lexíu en hún er að það gengur ekki að vera með einhver nova kort í símanum. Þau virka ekki uppi á heiðum og hæðum þegar það skiptir mestu máli að þau virki og haldi athyglinni frá hraðamælum og brekkum. Þannig var það því miður þegar við ókum niður af Möðrudalsöræfum eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Þetta hafðist þó allt að lokum og Egillstaðir heilsuðu með sól og blíðu.