Ég stóð með kaffibolla í hönd og fylgdist með maurunum, engisprettunum og mýunum yfirgefa Regal Princess í Aþenu. Ég var tiltölulega nývaknaður og hafði aðeins fengið mér forréttamorgunamat (einn banana) enda var klukkan ekki nema átta að morgni.
Það er mér gersamlega ómögulegt að sofa lengur en til svona 7,30 á morgnana. Sama hvenær ég fer að sofa. Þegar ég er búinn að sofa til svona 7 um morguninn er ég kominn úr djúpsvefninum og farinn að skynja umhverfið í kringum mig með öllum sínum hljóðum og þ.á.m. hrotunum í henni Öllu minni. Einn morguninn hélt ég að ég væri kominn niður í vélarrúmið í skipinu, hrökk upp með andfælum og stökk fram á gólf. Róaðist síðan þegar ég áttaði mig á því að það var bara Alla sem gaf frá sér þessi díeselvélarhljóð. Ekki ósvipuð vélarhljóðunum í traktor sem er í fullri inngjöf.
Hvað um það. Það færðist mikil ró yfir mig þar sem ég stóð uppi á 16. hæð og fylgdist með liðinu yfirgefa skipið. Örugglega hátt í 3.000 manns á leið í skoðunarferðir um Aþenu. Við vorum þegar hér var komið búin að fara í þrjár skoðunarferðir, í Róm, Istanbul og Mykonos. Þó að það sé frábært að fara í skoðunarferðir þá vorum við búin að ákveða það fyrir þessa ferð að slaka vel á og njóta þess að vera á skipinu.
Að fara í 9 tíma skoðunarferð er eins og erfiðisvinna. Maður kemur sveittur og þreittur til baka. Samt er það frábært val fyrir þá sem vilja að geta skoðað sig um í stórborgum eins og Róm, Istanbul, Aþenu og Napoli svo einhverjar séu nefndar.
Það að hátt í 3.000 manns væru að fara í land þýddi bara eitt. Ég var með alla vega tvo þjóna bara fyrir mig þennan daginn og framundan voru vangaveltur um hvaða bjórtegundir ég ætti að láta færa mér. Það getur nefnilega verið svolítið erfitt að ákveða sig hvaða bjór henti t.d. veðrinu og sama á við um margaríturnar. Það er líka rosalega erftitt að muna nöfnin á þeim. Mér tókst þó að leggja nafnið á einni á minnið en hún heitir „Bahama mama“ og er alveg ágæt.
Þjónarnir á skipinu eru af öllum þjóðernum nema norrænum. Flestir frá Filippseyjum og margir frá Indonesíu, Chile, Mexíkó og balkanlöndunum. Næsta klukkutímann fékk ég mér sæti með kaffibollann og fyrstu bókina í Game of Thrones og las þangað til klukkan sagði mér að það væri kominn tími til að vekja mína. Það tók mig nokkrar mínútur að koma henni á lappir og síðan héldum við af stað upp á 16 hæð í morgunmat. Við förum yfirleitt í morgunmat á 16 hæð á hlaðborðsstaðinn. Staðurinn er örugglega 1000 fermetrar að stærð og matarúrvalið er ótrúlegt. Margar gerðir af pylsum, beikoni, eggjakökum og eggjum, kjöti grænmeti, áleggi, ávöxtum, brauði og svo frv. Fyrstu dagana misstum við okkur alveg og maður var farinn að troða í sig kúfuðum matardisk af þessum kræsingum.
Eftir morgunmatinn var haldið út á dekk þar sem Alla lagðist á bekk og missti fljótlega megnið af meðvitundinni. Eftir heitan og sveittan dag tók við stuttur blundur áður en við fórum að græja okkur upp fyrir kvöldið. Við vorum búin að ákveða að fara í fjórrétta kvöldmat, kíkja síðan í leikhúsið og kannski á spilavítið. Skipið var lagt af stað til Feneyja og framundan var dagur á sjó.
Í leikhúsinu sáum við frábært broadway show og kíktum síðan á Churchill bar þar sem Alla hellti í sig nokkrum glösum af kokteilum. Þegar mín var búin að fá nægju sína þar stóð hún upp og sagði „Nú förum við á spilavítið.“
Ég var ekkert voðalega spenntur fyrir því enda finnst mér fjárhættuspil frekar heimskulegt fyrirbæri. A.m.k. 70 prósent af þeim sem taka þátt tapa. Það þýddi þó að sjálfsögðu ekkert fyrir mig að vera að malda eitthvað í móinn og í spilavítið fórum við. Þar eyddi Alla 50 dollurum, græddi síðan 60 og tapaði 10. Þegar ég náði henni loks út af spilavítinu leið henni eins og sigurvegara og var upptrekt í nokkra klukkutíma á eftir. Henni tókst þó að sofna fyrir rest.
Ég vaknaði á sama tíma og vanalega næsta morgun og forðaði mér út úr vélarrúminu. Dagur á sjó var runninn upp og framundan var svokallað „formal“ kvöld á skipinu, en þá klæða allir sig upp í sitt fínasta púss. Síðkjólar, smóking eða jakkaföt. Við komum síðan til Feneyja um hádegi næsta dag og vorum þar eina nótt. Við áttum flug frá Feneyjum að morgni þess sjötta og þurfum að vakna kl. 5.00. Við flugum frá Feneyjum til Osló og þaðan heim. Ferðalagið gekk vel í alla staði og það var að sjálfsögðu eins og alltaf, gott að koma heim.
Að baki er gersamlega frábær ferð þar sem við heimsóttum:
Barcelona, Toulon, Livorno-Florence, Róm, Napoli, Mykonos, Istanbul, Kusadasi, Aþenu og Feneyjar.
Við ferðuðumst 5,721 kílómetra.
Hótelið okkar: Regal Princess. Sjósett í maí á þessu ári. 330 metra langt, 38 metra breitt, 116,807 tonn, 19 þilför, hámarksfjöldi farþega: 4,222, hámarksfjöldi starfsfólks: 1,378, hámarkshraði 20 hnútar
Svona ferð er lítið eitt dýrari en að fara á hótel á Benidorm og ég held að það þurfi ekki að tala um mun á standard enda skipið eins og 5 stjörnu hótel eða meira. Eftir þessa upplifun er stefnan sett á næstu ferð eftir tvö ár og þá um Karíbahaf.
Umboðsaðili Princess á Íslandi er excellentia ehf. www.excellentia.is. Hún tekur að sér að skipuleggja svona ferðir og er hægt að fá hana í heimsókn til að kynna skipin gegn vægu gjaldi.