Ég hefði aldrei trúað því sjálfur ef einhver hefði sagt mér að ég ætti einhvertíman eftir að vakna kl. 6 um morgunn til þess að fara á ströndina. Ég hefði nú bara hlegið og líklega sagt að slíkt myndi ég aldrei gera þó að mér væri borgað fyrir það. Á fimmtudaginn vaknaði ég kl. 6 um morgunn til að gera mig kláran á ströndina og ég borgaði meira að segja sjálfur fyrir ferðina! Hvað gerðist veit ég ekki ennþá nema kannski þetta vanalega, „Hvað gerir maður ekki fyrir konuna!“
Strönd þessi var á eyjunni Mykonos sem er einn þurrasti staður sem ég hef augum litið. Þar skín sólin 300 daga á ári sem er alger andstæða við það sem maður á að venjast heima hjá sér. Fyrir strandferðina hafði ég ætlað mér að stíga eitt skref lengra í að ná einu af markmiðum mínum í þessari ferð en það er að vera „brúnni“ en Hannes vinur minn þegar ég kem heim. Það varð þó ljóst þennan morgun að það markmið á ekki eftir að nást þar sem líkamlegt ofnæmi mitt fyrir sól kom fram á bringunni og því var ekki um neitt annað að ræða en klæða sig í skyrtu og hneppa upp í háls. Ég hafði svo sem ekki miklar áhyggjur þar sem ætlaði bara að taka það rólega á ströndinni og halda mig í skugganum með góða bók á meðan Alla tæki sinn skerf af grísku sólinni.
Þessi fyrirætlan mín snerist síðan upp í hreina og klára martröð þar sem ströndin var ekki eins og stórar og breiðar Spánarstrendur heldur lítil og mjó og ég endaði á bekk við hliðina á Öllu ofan í sjávarmálinu. Martröðin stóð í heila 3 klukkutíma sem ætluðu aldrei að líða. Ég held að mér hafi aldrei á ævinni verið eins heitt og þennan morgun.
Hún Alla mín var hins vegar kát og ánægð með lífið, ræddi við strandverðina á spænsku þó að ég segði henni að þeir töluðu grísku. „Er það? Ég hélt að tyrkir töluðu spænsku?“ sagði hún. Annars talar Alla einverskonar hrognamál hér á skipinu þar sem hún notar bland af ensku, spænsku og íslensku. Eins og t.d.: „I will have uno Heineken in flaska, please.“
Þegar við vorum að bíða eftir rútunni á Mykonos umkringd samferðarmönnum okkar sagði hún.: „Tóti, þú ættir bara að ryðjast í gegnum þvöguna og segja I am from Iceland and I am alway´s first.“ Það litu margir undrandi á hana enda uppistaðan í hópnum ameríkanar.
Frá Mykonos héldum við áleiðis til Istanbul en þar beið okkar 4 klst skoðunarferð. Í henni sáum við „bláu moskuna“, skoðuðum „Hagia Sofia“ og „Underground Cistern“ ásamt því að heimsækja „Grand Bazaar“. Ferðin var fróðleg og skemmtileg og það var stórkostleg upplifun að fara með Öllu á Grand bazaar sem er markaður með litlum verslunum. Þetta er í eina skiptið á ævinni sem ég hef farið með minni konu í verslanir þar sem hún hafði ekki áhuga á að kaupa neitt. Ég hélt að ég myndi nú aldrei upplifa það! Á Grand bazaar er engin H&M verslun heldur litlar búðir með skartgripi, leðurvörur og teppi. Ég spurði leiðsögumanninn okkar (önugur tyrkneskur prófessor á áttræðisaldri sem er eins og klipptur út úr Indiana Jones bíómynd) hvort það væri engin H&M búð í Istanbul.
„M&M?“ Spurði hann.
„No, H&M.“ Sagði ég. „It is a store that sells clothes.“
„No, it is a chocolate. M&M. Very good.“ Sagði hann
Þar með var það ákveðið að næst þegar talið berst að utanlandsferð, þá á ég eftir að leggja það til að farið verði til Istanbul.
Reyndar gat mín ekki farið frá Istanbul án þess að kaupa eitthvað, svo að hún keypti sér í eina dós af cola light og „falsað“ Dolge&Cabana ilmvatn sem hún prúttaði niður úr 100 lírum í 40 hjá einum af þessum fjölmörgu og óþolandi götusölum sem voru út um allt. Ég sagði henni að kaupa ekki ilmvatnið en það var auðvitað ekki hlustað á mig. Það var síðan eins og við manninn mælt að 5 mínútum síðar vorum við hundelt af öðrum götusala sem hreinlega heimtaði að við keyptum líka ilmvatn af honum, sem við gerðum ekki.
Í gærkvöldi áttum við síðan pantað borð á grillstaðnum á skipinu en hann er annar af þremur veitngastöðum á skipinu þar sem maður þarf að borga eitt gjald fyrir matinn. Gjaldið er 25 dollarar á mann. Ég fékk mér 350 gramma T-bone steik og Alla grillaðan humar og nautalund. Geggjaður matur og frábær þjónusta.
Eftir matinn tók við stutt rölt um skipið til að finna stað sem engispretturnar (18-20 ára) og mýin (13-16 ára) höfðu ekki hertekið og það tókst fljótlega. Nú erum við stödd í Kusadasi í Tryklandi þar sem við ætluðum að liggja með tærnar upp í loft og gera ekki neitt. Það tóks næstum því þangað til mín ákvað að fara í ræktina og ég þurfti að sjálfsöðu að fara með þar sem hún ratar ekki um skipið. Ég gekk og hljóp til skiptis eina mílu sem tók um 15 mínútur en hún djöflaðist í klukkutíma. Á meðan fékk ég mér eina kalda Stellu og kíkti í bók. Nú er stefnan tekin út á lífið í skipinu sem lætur fljótlega úr höfn hér í Kusadasi og verður í Aþenu í fyrramálið, sunnudag.