Dagurinn í dag hefur farið í að slaka á eftir erfiðan dag í sólinni í gær og frábært kvöld á skipinu. Það er svakalega erfitt að liggja á sólbekk í 30 stiga hita og sólskyni og gera ekki neitt, nema kannski lesa. Heilinn í manni gerir endalausar tilraunir til að fá mann til að fara að gera eitthvað af viti en líkaminn neitar að hlýða fyrr en heilinn gefur fyrirskipun um að vökvunar sé þörf. Þá þarf maður að ákveða í hvaða formi vökvunin á að vera. Vatn, gos,
ísköld Margaríta, kokteill, kaffi eða bjór? Mjög erfið ákörðun sem tekur á. Eftir síðdegisblund var haldið út að borða nautasteik með öllu. Að því loknu lá leiðin í leikhúsið þar sem Beatlemaniacs héldu uppi fjörinu. Þetta „Bítla-coverband“ var bara nokkuð gott. Besta sjóvið hingað til á skipinu. Eftir sjóvíð var haldið á Churchill bar sem í þetta skipti var þéttsetinn af unglingum.
Framundan var dagur á sjó á leið okkar til Mykonos en það þýðir að skipið er fullt og sá hluti farþeganna sem fer í land í hverri höfn (mikill meirihluti) átti frí daginn eftir. Eftir einn drykk á Churchill heyrðum hvar unglingarnir voru farnir að tala um „old people“ þannig að við héldum af stað og kíktum í spilavítið sem var fullt af fólki. Við höfðum ekki áhuga á að freista gæfunnar og héldum sem leið lá upp á „staðinn okkar“ á 17 hæð en viti menn þar mættum við unglingum í hópum sem höfðu lagt svæðið undir sig. Þeir eru eins og mý á mykjuskán þessi grei, hvert sem maður fer. Reyndar eru þau nú öll mjög stillt og prúð en þegar maður er er kallaður „gamall“ þá dregur maður línu í sandinn. Eftir stutta stund á sautjándu ákváðum við sofna yfir eins og einni bíómynd.
Í kvöld er svokallað „formal“ kvöld á skipinu en þá klæða allir sig upp í sitt fínasta púss, halda inn í miðju skipsins þar sem kampavínsgosbrunnir bíður okkar.