Ég svaf yfir mig í dag og vaknaði ekki fyrr en um hálf níu. Ég byrjaði á því að reyna að vekja Öllu með litlum árangri þangað til ég fattaði að segja við hana „Alla mín. Sól.“ Þá spratt hún strax fram úr rúminu.
Svona getur maður nú verið vitlaus stundum. Á meðan Alla fór að sparsla á sér andlitið gerði ég heiðarlega tilraun til að leita að kveikjaranum sem hún hafið látið hverfa kvöldið áður, las síðan nokkra kafla og horfið á einn þátt af CSI í sjónvarpinu. Þá loks var mín klár og við héldum af stað upp á 16 hæð þar sem morgunverðarhlaðborðið er til staðar. Þar lenti ég í þvílíkum vandræðum við að velja á diskinn minn. Ég gat valið um óteljandi tegundir af brauði, áleggi og ávöxtum en það er ekki alveg minn kaffibolli í þessari ferð. Ég fór því í salinn sem geymir alvöru morgunmat. Þar gat ég valið um enskt eða amerísk bacon, nokkrar tegundir af eggjakökum, steikt og hrærð egg í nokkrum útgáfum, kartöfluklatta, steiktar kartöflur, nokkrar tegundir af pylsum og að sjálfsögðu bakaðar baunir. Ég ákvað bara að fara einföldustu leiðina og smakka á þessu öllu. Alla fékk sér hins vegar jógúrt og melónur sem mér finnst bara frábært hjá henni. Ég styð hana heilshugar í að fara nú varlega í þessum allsnægtum matar. Það borgar sig ekki fyrir hana að troða of miklu í sig.
Þegar við vorum búin með morgunmatinn skruppum við á staðinn okkar sem er aftast á skipinu á 16 hæð. Þar er lítil laug, sólbekkir, bar með þjóni og þar er leyfilegt að eitra. Það var ekki mikið um manninn á skipinu í morgun enda fóru 2.000 manns frá borði í skoðunarferðir og unglingarnir líka. Það er eiginlega það eina sem kemur mér á óvart í þessari ferð. Hvað það eru margir unglingar á skipinu. Ég sagði nú við sjálfan mig í gær það sama og bróðir minn segir um útlendingana sem heimsækja Íslanda. „Þetta flæðir um allt hér eins og engisprettur.“ Ég hitti reyndar roskinn sköllóttan ameríkana í lyftunni í gær og hann hafði þetta um málið að segja: „You might think this is a xxxxxxx Disney tour?“
Jæja, ég var nýbúinn að drekka kaffi og fá mér ferskt loft þegar mín dró mig á fætur og inn í lokað herbergi inn af þessum draumastað okkar á 16 hæðinni. Mér brá í brún þegar ég sá að ég var kominn inn í líkamsræktarsal af fullkomnustu gerð. „Núna brennum við matnum.“ sagði mín eins og ég þurfi nú að brenna einhverju, maður sem labbar í vinnuna á hverjum einasta dagi. Ég lét samt til leiðast og prófaði hlaupabrettið. Það var nú bara pínulítið eða ör-örlítið gaman og fór ég rúma eina mílu á gönguskokki. Gott ef ég prófa þetta ekki einu sinni enn?
Ég fór síðan út í sólina, andaði að mér ferska loftinu og fékk mér eitthvað kalt að drekka á meðan Alla djöflaðist í ræktinni. Mér finnst það alveg frábært hvað hún er dugleg að puða í ræktinni þessi elska enda ekki vanþörf á. Þessu næst var sólbaðið undirbúið með tilheyrandi sólarvarnarsmurningi. Það er eiginlega mesta puðið í ferðinni að maka þessum vökva á sig. Það er kannsi það eina sem vantar á þetta skip að maður fái þessa þjónustu um leið og maður fær margarítuna á borðið við hliðina á sólbekknum?
Þar sem ferð til Rómar er fyrirhuguð á morgun, mánudag, var ákveðið að taka kvöldmatinn á hlaðborðsstaðnum á 16 hæð. Þar var þema kvöldsins matur frá Asíu en ég sleppti því að sjálfsögðu að láta Öllu vita af því. Ég hlóð diskinn minn með 10 réttum, fékk mér sæti og pantaði mér hvítvín. Ég sá Öllu tilsýndar þrammandi um salinn með uppgjafarsvip á andlitinu. Hún kom loksins að borðinu með eina skál sem í voru franskar kartöflur og þrjár makkarónur með osti. „Hér er ekkert ætt til“ sagði hún og gretti sig. Frönskurnar voru eini maturinn sem henni leyst á en hún ákvað að tékka á makkarónunum af því að henni finnst pasta gott eins og krakkarnir okkar þekkja. Ég fór aðra ferð og fyllti á diskinn en Alla lét sér franskarnar duga í kvöld. Næst lá leið okkar í leikhúsið þar sem við sáum hálftíma söngleikjasjóv sem var var hreint út sagt frábært. Síðan kíktum við inn á Churchill bar en þar hafði þjónninn (töframaðurinn) lofað okkur kveikjar en það er, ótrúlegt en satt, ekki hægt að kaupa kveikjara á skipinu. Í fyrramálið byrja ný ævintýri með 9 klukkustunda ferð til Rómar. Ég átti reyndar eftir að kanna það en ég vona að það verði engar tuskubúðir á vegi okkar.