Ég á bara eitt lýsingarorð til að lýsa ferðinni á Regal Princess hingað til. „Ólýsanlega geggjað“.
Miðað við Barcelona þá hefði ég nú alveg sætt mig við fellihýsi á Skagaströnd eða jafnvel hótel á Benidorm.
Ef ég fer í ferðalag og sé tattóveruðum bretum bregða fyrir þá VEIT ég að ég er ekki á góðum stað þegar maður miðar við hvaða „standard“ maður vill hafa á ferðalögum. Þegar maður fer með fellihýsi á Skagaströnd þá þarf maður að hafa meðferðis auka tjaldhæla til að festa allt niður og nóg af brjóstbirtu til að tíminn líði eins fljótt og mögulegt er. Þegar maður fer á Benidorm (borg tattóveruðu bretanna) þá þarf maður að hafa með sér góð sólgleraugu, helst mjög dökk svo að maður sjái eins lítið og mögulegt er, sterka sólarvörn og aðeins meira af brjóstbirtu en þegar maður fer á Skagaströnd. Reyndar þarf maður ekki að hafa hana með sér á Benidorm heldur kaupir hana bara á staðnum fyrir lítið sem ekki neitt. Þá getur maður bara sest út á svalir og verið hálf meðvitundarlaus í allt að viku á meðan Alla sýgur sólina.
Hér á Regal Princess þarf maður ekki neitt. Það er allt til staðar og þvílíkt og annað eins. Ég er ennþá að spyrja mig að því hvers vegna í ósköpunum ég hafi ekki farið fyrr í svona ferð. Það er alveg órúlegt í raun. Það getur vel verið að kosti aðeins meira en að fara til Benidorm og líklega minna en að fara á Skagaströnd en það er hverrar einustu krónu virði. Ég kýs að kalla skipið fljótandi hótel, enda er það ekkert annað. Og þetta er að minnsta kosti 6 stjörnu ef ekki meira. Í kvöld ákváðum við Alla að fara bara og fá okkur pítsu á einum af ítölsku stöðunum hér og það var eins og allt annað alveg meiriháttar. Síðan lá leiðin í leikhúsið þar sem við horfðum á hálftíma langt Sinatra show og að því loknu skelltum við okkur í næturklúbbinn og á Churchill bar. Churchill bar er svona vindla bar þar sem maður getur keypt sér hágæða vindla fyrir k og k. Þar er líka hægt að njóta þeirra.
Þetta kvöld var þjónninn á barnum í miklu stuði og þegar hann var búinn að færa okkur drykk númer eitthvað sem ég man ekki þá tók hann kvittunina sem ég lét hann hafa, vöðlaði henni saman fyrir framan nefið á okkur og breytti henni í dollaraseðil. Þarna ákvað ég nú að smakka aftur á kokteilnum mínum til að fullvissa mig um að hann væri ekkert of sterkur. Í næsta skipti sem þjónninn þjónustaði okkur sagði hann „sjáið mig“. Og viti menn. Hann baðaði út höndunum eins og fugl og lyftist svona 10 sentimetra upp af gólfinu. Þetta er alveg dagsatt. Ég tékkaði núna líka á kokteilnum hennar Öllu og sló sjálfan mig utanundir en það breytt ekki neinu. Þjónninn hafði flogið. Eftir frábæra kvöldskemmtun héldum við síðan gangandi til híbýla okkar og gerðum stuttan stans á leiðinni. Þar gerði ég þau svakalegu mistök að lána Öllu kveikjarann minn. Og viti menn eins og fyrir töfrabrögð þá hvarf kveikjarinn í heilu lagi og ég hef ekki séð hann síðan.