Hið langþráða ferðalag á vit ævintýranna í siglingu um miðjarðarhafið með stuttu stoppi í Barcelona er nú loksins hafið. Það er reyndar löngu hafið þar sem núna erum við á leið til Toulon í Frakklandi. Ég varð bara fyrir svo miklu sjokki þegar ég kom til Barcelona að ég gat ekki sest niður fyrr og byrjað á ferðasögunni.
Við leigðum okkur nefnilega „penthouse“ íbúð í Barcelona. Íbúð með tveimur svölum og alles til að það væri nú alveg á hreinu að ekki einn einasti sólardropi færi til spillis. Ég sætti mig strax við svalirnar þar sem þá væru miklar líkur á að ég slyppi við búðarráp sem er eitt það versta sem ég get hugsað mér að lenda í. Við komuna í íbúðina leist mér frekar illa á blikuna. Íbúðin einhversstaðar úti í rassgati og klóaklyktin mætti manni þegar maður gekk inn. Ég var bara svo þreyttur að ég nennti ekki að vera að svekkja mig á því og ákvað að ímynda mér bara að ég væri breskur ferðamaður á Bendorm, án tattús. Svo að ég kláraði bara bjórinn sem ég hafði keypt í fríhöfninni og fór að sofa.
Það fyrsta sem ég gerði þegar ég vaknaði næsta morgunn var að fara út á svalir og virða fyrir mér hið stórfenglega útsýni sem mér hafði verið lofað í auglýsingu um íbúðina og ég hafði séð ávinning af í myrkrinu kvöldið áður. Útsýnið var jú frábært en ég fék strax á tilfinninguna að ég væri staddur í Líbanon eða einhverju arabalandi. Það eina sem vantaði var söngl frá einhverri moskunni. Það var þó huggun harmi gegn að miðborg Barcelona blasti við sem hilling í fjarska og ég var nokkuð viss um að hún Alla mín myndi ekki nenna að ferðast út að sjóndeildarhringnum þegar sólin skein svo glatt og sólarbekkirnir biðu á svölunum hinumegin. Mér varð að sjálfsögðu ekki að ósk minni. Eftir að hafa legið hálf meðvitundarlaus á sólarbekknum í nokkra klukkutíma reis mín upp og dró mig af stað niður í bæ.
Eftir langa göngu sem lauk með fimmtán mínútna ferðalagi i leigubíl sem var ekið eins og rallökutæki á milli mótorhjóla og trukka hófst hryllingurinn.
Þramm í 35 stiga hita um hálfa borgina í leit að H og M. Ég veit alveg hvað H og M er þó að það hljómi nú eins og M og M og ég hef meira að segja keypt mér skyrtu og sokka þar einhvertíman. En ég er bara þannig. Ef mig vantar skyrtu þá fer ég bara út í búð og kaupi mér eina eða tvær. Hins vegar þegar Öllu vantar skyrtu þá fer hún líka út i búð og kaupir eina eða tvær en hún þarf í leiðinni að skoða hverja einustu flík í búðini. Og ég meina það sem ég segi.
Sem betur fer þá tekur nú allt sinn enda og þegar mér tókst loksins að ná Öllu út úr búðinni sem heitir eins og sælgætið hófst ganga upp endilanga römbluna. Ég gerði mitt besta til að halda uppi góðum hraða á göngunni í von um að hún hefði ekki tíma til að kíkja í búðarglugga. Það tókst að sjálfsögðu ekki og ég var dreginn í einhverja tuskubúð þar sem ég mátti anda að mér klóakmettuðu lofti á meðan hún fann eitthvað til að troða ofan í burðarpokann. Þegar við loksins héldum göngu okkar áfram tók ég eftir því að Alla hélt bara á nýjasta pokanum. Ég stoppaði, spurði hvar sælgætisbúðapokinn væri og það var sem við manninn mælt hún rauk af stað niður römbluna aftur og inn í tuskubúðina sem við vorum nýkomin út úr.
Það var þó huggun harmi gegn að pokinn fannst og ég slapp við að byrja aftur á upphafsreit. Eftir að hafa borðað verstu pitsu sem ég hef smakkað á flottum veitingastað á römblunni komumst við loks í leiguíbúðina á Líbanonhæðum. Það var tánum mínum líkn að geta loks sest niður og slappað af. Hér lýkur fyrsta kafla ferðasögunnar sem hófst í Barcelona. Annars verð ég að segja það að af flestum borgum sem ég hef heimsótt í Evrópu er Barcelona sú sýsta. Auðvitað eru margar fallegar byggingar í Barcelona en þær eru líka í Edinborg, Lundi eða í Feneyjum. Barcelona er skítug, illa lyktandi og alltof þéttbyggð borg fyrir minn smekk. Ekki minn tebolli eins og einhver sagði einhvertíman.