Sólarvörninni er makað á maga, læri, leggi, handleggi, andlit, bak og hvar þar sem sést í bert skinn. Stuttbuxurnar eru brettar eins langt upp í nára og mögulegt er til að hámarka það svæði sem sólin nær til. Svona er útsýnið af svölunum.
Sé konunni minni reyndar hvergi bregða fyrir sem þýðir að hún hefur fundið einhvern blett undir húsvegg hótelsins þar sem sólin er sterkari. Annars vaknaði hún klukkan 10.30 í morgun, fékk sér banana og settist út á svalir hjá mér. “Sit hér í fimm mínútur” sagði hún upphátt. Ég varð mjög hissa og þakkaði henni fyrir að hafa ákveðið að dvelja með mér á svölunum í fimm mínútur. “Nei ég er að bíða eftir því að kremið þorni,” svaraði hún með annað augað opið en hitt hálf sofandi ennþá. Tveimur mínútum síðar leit hún á klukkuna, opnaði hitt augað og hvarf út um dyrnar á íbúðinni búin handklæði og tösku fullri af illa lyktandi sólarolíum og varnarkremum.
Satt að segja var ég bara hálf feginn. Fékk svalirnar út af fyrir mig þar sem ég gat breytt úr mér undir sólinni með bók við hönd og þurfti ekki að standa upp til að sækja neitt.
Í gærkveldi elduðum við Solomillo og kjúklingabringur í íbúðinni handa 13 manns. Maturinn var frábær og heppnaðist vel. Besta og ódýrasta máltíðin til þessa.
Dagurinn hafði þá liðið venju samkvæmt, liðið lá við litla meðvitund undir sólinni hér og þar í garðinum og endaði síðan á því að fara á ströndina þar sem hægt er að rekast á notaðan klósettpappír og túrtappa svo fátt sé nefnt. Þegar ég var vinsamlega beðinn um að mæta á ströndina í fyrradag til að taka myndir sá ég hvar strandgestir snýttu sér í fjöruborðið og taldi ég að úr því að þeir tæmdu nefið þarna þá væru miklar líkur á því að þeir tæmdu eitthvað fleira úr líkamanum í sjóinn. Það er sko nógu slæmt að eiga það á hættu að notaður klósettpappír vefjist um höfuð manns í sjónum þó að maður eigi það ekki líka á hættu að fá horið úr einhverjum upp í sig. Þá er nú betra að vera í sundlauginni!
Brúnkukeppninni fer nú senn að ljúka og það er orðið nokkuð ljóst hver muni hreppa annað sætið á eftir mér og Ínu en við höfum náð gríðarlegum árangri í að dekkja hina sönnu og hvítu íslensku húð okkar. Af hinu liðinu er Gunnar líklegastur til að hreppa verðlaunin en hann er orðinn svo dökkur að manni bregður við að mæta honum á göngum hótelsins að næturlægi. Um daginn hélt ég að einhver hinna fjölmörgu svertingja sem vafra um götur Albir seljandi falsaðar vörur, væri kominn inn á hótelið. Sá þó fljótlega að þar var bara Gunnar á ferð og varningurinn sem ég hélt að hann væri að selja var slatti af sólarolíum og vörnum. Reyndar var Gunnar endurskýrður í gær þegar systir hans nefndi hann “Fabio”,
Nú eftir nokkrar mínútur hefur kvenfólkið ákveðið að ég skuli elta þær inn til Benidorm þar sem ætlunin er að heimsækja tuskubúðir og fá sér að borða að því loknu. Ég verð víst að sætta mig við örlög mín og reyna að taka þeim eins og maður. Kannski slepp ég óskaddaður á líkama frá þessari ferð en það er spurning með geðheilsuna?