Það er víst komið að því. Ég stend á gangstétt í borg tattóveruðu Bretanna, Benidorm. Hópurinn samanstendur af mér, Álfhildi, Sibbu, Eddu og Rögnu. Hryllingurinn er að hefjast. Ég einn míns liðs með fjórum kaupóðum konum í Benidorm þar sem hver tuskubúðin rekur aðra svo langt sem augað eigir. Hitinn er 32 gráður og klukkan er 17.00
Við tekur gönguferð þar sem viðkoma er höfð í hverri einustu verslun við götuna og endrum og eins þarf að hlaupa yfir á gangstéttina hinumegin. Eftir tvo klukkutíma er ég hættur að muna hvað ég heiti, svitinn þekur allan líkamann frá toppi til táar og ég er kominn með stóra blöðru á litlu tá. Fengurinn er þó ekki mikil hjá kvendýrunum, nokkrir pokar með örfáum tuskum. Mér var tilkynnt að taka ætti stefnuna inn í gamla bæinn en þar væru sem sagt alvöru verslanir, Sara, TopShop og aðrar svipaðar hryllingsbúðir. Ég sá í hendi mér að ef ég ætti ekki að tapa þeirri litlu aleigu sem ég ætti eftir, þá yrði ég að tefja tímann, helst það mikið að við yrðum að fá okkur að borða áður en við næðum í Söru. Það var ágætis möguleiki á því að það tækist þar sem við höfðum ákveðið að borða klukkan 20.00.
Ég sagði kvenfólkinu því þarna á staðnum að ef ég ætti ekki að detta niður og drepast úr ofþornun þá yrði ég að fá eitthvað að drekka. Á vegi okkar, eins og vin í eyðimörk, varð vínbúð og fyrir utan hana stóð kóksjálfsali sem seldi cola light á ein evru. Ein evra fyrir kókflösku á Benidorm er gjafverð. Edda sagði mér að ég skyldi sko ekki setja pening í sjálfsalann. Ég myndi alveg örugglega ekki fá neitt til baka. Ég hló bara að henni, setti eina evru í og viti menn, ég fékk ekkert í staðinn. Alveg sama á hvaða takka ég ýtti. Álfhildur sá að ekki var hægt að sætta sig við svona svínarí, óð inn í vínbúðina og sótti afgreiðslumann sem kom með lykla, opnaði sjálfsalann og ég fékk mitt kók. Þegar ég var að hella úr flöskunni ofan í þurran hálsinn sá ég hvar Álfhildur stormaði aftur inn í vínbúðina segjandi upphátt: “Kannski get ég keypt Tópas flösku hérna”. Daníel hafði beðið hana um að kaupa Tópas í fríhöfninni en Álfhildur var búin að heyra mig tala um hvað allt brennivín væri ódýrt á Spáni og sá sér gott til glóðarinnar.
Ég reyndi að kalla á eftir henni að þar sem Tópas væri nú íslenskt vín, væri ekki möguleiki á því að kaupa það í einhverri vínbúð í Benidorm. Hún heyrði ekki i mér heldur stormaði hvern ganginn á fætur öðrum inni í búðinni áður en hún sneri sér að afgreiðslukonunni og spurði: “Do you have Topas? It is a vine in a bottle.” Þegar þarna var komið við sögu og afgreiðslukonan var búin að gretta sig einu sinni hafði ég náð að kyngja sopanum af kókinu og komast í dyragættina á búðinni þar sem ég gerði þau afdrifaríku mistök að kalla: “Alla, ertu stupid. Tópas er íslenskt vín.” Álfhildur afsakaði sig brosandi og gekk út úr búðinni en augnaráðið sem ég fékk er ekki prenthæft. Stupid er nefnilega orð sem meira að segja Spánverjar vita hvað þýðir.
Það sem mestu skipti var að mér tókst þarna að tefja tímann nógu lengi til að sleppa við Söru og TopShop, við borðuðum á góðu ítölsku veitingahúsi og skoðuðum síðan mannlífið í Benidorm fram að miðnætti þegar héldum heim á leið í sveitina okkar í Albir.
Þegar á hótelið var komið hittum við Gunnar sem sagði okkur frá hinu “mikla” áreiti sem hópurinn hefur orðið fyrir af höndum eiganda hótelsins sem heitir Antonio. Hann er búinn að vera að gera okkur alveg geggjuð vælandi í okkur yfir því hvað við borðum lítið á hótelinu og hvort við ætlum nú ekki að borða síðast kvöldið á hótelinu hjá honum. Hann sagðist mundu elda möndlufyllt lambalæri handa okkur. Á annars fínu hóteli er þetta búið að vera ofboðslega leiðinlegt og nálgast áreiti. Við höfum að vísu borðað hér í tvö skipti en viljum flest fara út að borða og skoða mannlífið fyrir utan að okkur langar ekkert til að borða lambalæri á Spáni. Gunnar hefur orðið fyrir mesta áreitinu frá karlinum en bjargar sér alltaf út úr málunum með því að segja karlinum að ég sé sá sem öllu ráði í hópnum í sambandi við mat og slíkt. (Það er auðvitað ekki rétt!!) Karlinn virðist síðan ekki “þora” að tala við mig þannig að ég hef sloppið við mesta áreitið. Hann bað þannig Álfhildi um að tala við mig til að athuga hvort við vildum nú ekki borða hjá honum síðasta kvöldið.
Ég má nú ekki vera að þessu lengur, þarf að drífa mig út i garð eða niður á strönd til að baka mig í sólinni áður en ég legg af stað heim. Ég var nefnilega að fatta það að ég er búinn að misnota fríið mitt og eyða því í bölvaða vitleysu við að lesa og skrifa. Það vita allir venjulegir íslendingar að á Spáni á maður að liggja í sólbaði frá sólarupprás til sólseturs. Annars er bara eitthvað að manni!