Jæja öll þið fölu og snjóhvítu þarna heima á Íslandi. Héðan er allt gott að frétta eins og vanalega. Hópur af náfölum íslendingum kom hingað í nótt og mér sýnist að þeir séu flestir búnir að stimpla sig inn. Liggja eins og hráviði í garðinum og lýsa allt upp með snjóhvítri húðinni.
Annars komst ég að því í gær að ég er hérna með eintómum kerlingum og nokkrum börnum líka. Alla, Sibba, Þóra og Gunnar voru að metast um það hvert þeirra væri nú brúnast þegar ég kom að þeim þar sem þau voru að bíða eftir okkur til að fara út að borða í gær. Eins og kerling var Gunnar að sýna þeim magann á sér og benda þeim á að hann væri nú orðinn ansi brúnn. Ég spurði hann þá hvar hann ætlaði sér að sýna þennan sama maga þegar hann kæmi heim til Íslands. Hvort hann færi oft í sund þar sem hann gæti montað sig af honum? Nei hann fer aldrei í sund. Hvort hann gengi um í stuttum hlýrabol og stuttbuxum dags daglega á íslandi? Nei hann gerir það auðvitað ekki. Niðurstaðan er sem sagt sú að hann getur dáðst að maganum fyrir framan spegilinn heima hjá sér. Þess vegna segi ég og veit að það er alveg nóg að verða brúnn í framan og á höndunum fyrir neðan olnboga. Það er það svæði sem allir sjá. Ég sagði þeim síðan að hætta þessu bulli það væri tilgangslaust fyrir þau að vera í einhverri “keppni”. Ég væri fyrir löngu síðan búinn að vinna hana þar sem ég væri lang dekkstur af þeim öllum. Þ.e. miðað við hvað ég var hvítur þegar ég kom hingað út. Nánast eins og albínói.
Mikið ofboðslega er bjórinn annars góður hérna. Það er merkilegt hvað það er mikið betra að drekka bjór í 30 stiga hita en í 5 stiga hita.
Í gærkveldi fann ég síðan loks þessa dásamlegu tilfinningu sem maður finnur alltaf þegar maður kemur til Spánar. Ég var farinn að halda að ég væri í einhverju öðru landi þegar Sibba fékk loks að ráða því hvert farið yrði að borða. Hún valdi ramm-spánskan strandstað þar sem fengum loks að kynnast lélegum veitingastað með miðaldra spönskum karlþjóni sem skyldi ekki orð í ensku og var hrikalega pirraður á því að 13 manna hópur frá Íslandi væri að ryðjast þarna inn með tilheyrandi óþægindum fyrir hann. Lasagnað sem ég fékk var á bragðið eins og ekkert. Sem sagt bragðlaust og þetta er i fyrsta skipti sem dóttir mín getur ekki borðað nema tæplega helminginn af Pitsa Margarita sem er hennar aðal og eini kvöldmatur hingað til á Spáni. Þó að þessi tilfinning hafi verið dásamleg og fært manni Spán nánast beint í æð, þá var tekin einróma ákvörðun þarna við borðið á El Greco að fara á “ákveðna” veitingastaði þann tíma sem eftir lifir af ferðinni.
Annars reyni ég að eyða sem mestum tíma hér við að skrifa. Ég er að skrifa eina bók og eitt sjálfshjálparrit. Bókin hefur vinnuheitið “Svörtu Ekkjurnar” og sjálfshjálparritið heitir “150 aðferðir til að lifa af í sumarfríi á Spáni með þremur kaupóðum og sóldýrkandi konum.”
Hér er fyrsta reglan.
1. Þú mátt aldrei undir neinum kringumstæðum gera það heyri kunnugt að þú þurfir að skreppa út í búð að kaupa bjór eða kaffi. Þá er næsta víst að þessi litla og einfalda innkaupaferð breytist í lifandi martröð þar sem þú rekur lestina þrammandi “búð úr búð”. Segðu frekar að þú ætlir að skreppa aðeins á klósettið og laumaðu þér síðan eins hljóðlega og þú getur út um útidyrnar. ALLS EKKI taka farsímann með þér.