Kæru vinir. Ég sit hér á svölunum á Hótel La Colina með tölvuna fyrir framan mig og kaldan Amstel við hliðina á mér og læt andvarann leika um hálfnakinn líkamann. Æi, ég held að ég byrji aftur!
Héðan frá Albir er allt gott að frétta. Veðrið er búið að vera svona upp og niður, aðeins meiri gola en ég hefði kosið og í gær var skýjað og rigning. Ég var alveg svakalega ánægður í gærmorgun þegar ég sá að sólin ætlaði að gefa okkur smá frí og hugsaði með mér að nú myndi ég sjá aðeins meira af konunni minni. Mér varð að ósk minni. Úr því að það var engin sól til þess að liggja hálf meðvitundarlaus undir, tók sú sem öllu ræður ákvörðun um að fara í skoðunarferð í La Marina. La Marina er svona hryllings-moll, eða réttara sagt risavaxin verslunarmiðstöð rétt fyrir utan Benidorm. Eftir hálf máttlaus og veikluleg mótmæli varð ég að játa mig sigraðan og slást í för með öllum 13 manna hópnum í leigubílaferð í hryllingsmollið. Mér finnst allt í lagi að fara í Bónus og kannski Hagkaup eða í mesta lagi að skjótast í einhverja skóbúð í Kringlunni, búinn að ákveðja hvað eigi að kaupa, en að fara í mörg hundruð þúsund fermetra verslunarmiðstöð þar sem hver tuskubúðin rekur aðra er martröð líkast. Það er nú líka þannig að ég er ekki bara dreginn á eftir konunni minni elskulegu heldur er dóttir mín líka með í för. Og sé Álfhildur ofvirk í búðunum þá kemst hún varla með hælana þar sem dóttir mín er með tærnar. Mér til skelfingar er mér að skiljast það núna að Eddu Þórunni finnst skemmtilegt að versla. Reyndar er það það skemmtilegasta sem hún gerir. Hún sagði mér þannig að hún elskaði að fara í búðir.
Ég ákvað það strax þegar við vorum komin í hryllingsbúða-mollið að fara bara mína leið. Sagði þeim að fara í búðir og fór síðan og keypti það sem mig “vantaði”. (Er að reyna að fá dóttur mína til að skilja að maður á bara að kaupa það sem mann vantar), en það var eitt lítið scart tengi fyrir sjónvarpið hérna. Síðan gekk ég um gangana sem aldrei taka enda í svona verslunarmiðstöðum og endaði á því að fá mér bjór uppi á þaki. Ekki einn heldur tvo. Til allrar lukku þá “fann” Álfhildur ekki mikið á sig í þessari ferð og Edda ekki heldur en mér til mikillar skelfingar þá fannst þeim verðin mjög hagstæð og eru staðráðnar í að fara í annan leiðangur fljótlega. Allt tal mitt um dýra yfirvigt og annað í þeim dúr fer inn um eitt og út um annað. Ég er þess vegna að reyna að finna upp á einhverri afsökun sem er nógu góð til að þurfa ekki að fara með þeim og það sem mér sýnist vera mín eina von er einfaldlega að fá mér rauðvín í morgunmat og vera búinn með tvær áður en þær leggja af stað. Þær taka mig örugglega ekki með nema í fullkomnu standi.
Talandi um rauðvín. Það er sko nóg af því hér. Þúsund tegundir á fáránlegum verðum. Mér finnst Rioja vínið mjög gott og kannski of gott. Sérstaklega með mat. Bjórinn stendur síðan alltaf fyrir sínu en það er ekki eins mikið úrval af honum og rauðvíni í verslunum hér.
Maturinn er líka mjög góður og verðlagið hagstætt, en matur fyrir okkur þrjú með rauðvíni og bjór er alveg frá 30-55 evrur.
Ég vona að allir hafi það sem best í rigningunni heima og bið að heilsa öllum.