Svitinn lak niður ennið á mér og rann mjúklega niður nefið þar sem hann breiddi úr sér og flæddi yfir bæði augun. Ég teygði mig í handklæðið sem lá á bekknum við hliðina mér, tók af mér sólgleraugun og þerraði svitann. Hitinn í Napolí í dag er 28 °C en í sólinni er hann líklega nær 40 gráðum.
Ég setti sólgleraugun á mig og leit á Öllu sem lá hálf meðvitundarlaus á bekknum við hliðina á mér. „Er ég nokkuð rauð í andlitinu?“ Muldraði hún með annað augað opið. Ég leit á andlitið á henni og gat hvergi séð rauðan blett á því. Liturinn var líkari þeim sem maður sér þegar maður opnar dós með brúnum skóáburði. „Nei,“ svaraði ég. „Viltu eitthvað að drekka?“ „Já kannski kók,“ svaraði hún. Ég rétti upp aðra höndina og þjónninn var mættur til okkar áður en ég náði að láta hana síga. „Anything for you sir?“ Spurði hann brosandi. „Yes I would like one large Stella and she would like one diet cola,“ svaraði ég um leið og ég leit á úrið mitt. Klukkan var að verða þrjú eftir hádegi þannig að það var kominn tími til að skipta úr vatninu yfir í eitthvað kröftugra.
Þjónninn hvarf á braut og ég þurrkaði meiri svita af andlitinu. Þetta var næstum því óbærilega erfitt. Að liggja svona á sólarbekk með útsýni yfir Napolí og gera ekki neitt nema jú að bera á sig sólarvörn, lesa og drekka eitthvað kalt. Áður en ég hafði tækifæri til að þurrka svitann af bringunni var þjónninn mættur með drykkina okkar á bakka. Hann lagði fullt bjórglasið á borðið við hliðina á mér og sagði „here you are sir“, og lagði klakafullt glas á borðið við hliðina á Öllu og fyllti það af sykurlausu coca cola. „here you are madame,“ sagði hann og Alla svaraði um hæl: „Thank you darling, nei ég meina thank you.“ Þjónninn var horfinn á braut til að sinna einhverjum öðrum gestum.
Á skipinu eru 1.400 starfsmenn og þar af eru 290 sem sjá um að elda ofan í farþegana. Ég hef ekki hugmynd um hvað það eru margir í þjónustustörfum en þeir eru ansi margir. Starfsfólkið á skipinu er af öllum þjóðernum en þess er getið á nafnspjöldunum sem þau bera hvaðan þau eru.
Eftir að hafa legið sólinni frá klukkan 10-16 (Alla. Ég var ekki svona lengi), skelltum við okkur í líkamsræktina og ætlum síðan að hvíla okkur aðeins fyrir kvöldið. Það er nefnilega heilmikil vinna að liggja í sólbaði, troða ofan í sig mat og bjór og gera ekki neitt allan daginn.