Dagur 4
Ég rakst á þetta skilti (sem er á myndinni )þegar við komum heim úr heimsókninni til frænku Svövu í gær. Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin augum. Það gat ekki verið satt að það væri einhver vegur hérna sem lægi þangað sem ekkert átlett væri. Hér þar sem hvert átlettið og mollið rekur annað.
Ég ákvað strax að fara þennan veg þegar haldið væri af stað í tuskukaupaleiðangur í dag en því miður þá var ég ekki við stýrið. Jói, ennþá með kvenhormónana í blóðinu eftir bjórdrykkju gærdagsins, tók vinstri beygju og stefnuna á einhverja hræðilegustu hryllingsbúð sem til er. Florida Moll. Sú verslunarmiðstöð er örugglega 10 sinnum stærri en Smáralind. Þegar við komum á staðinn sagði ég nei takk og neitaði að fara út úr bílnum. Það varð úr að sólardýrin fóru ein inn í mollið og við Jói ákváðum að kíkja aðeins í Walmart til að sjá hvernig sú fræga búð liti út.
Að kíkja aðeins í Walmart er svolítið ofsagt þar sem Walmart búðin sem við fórum í er svona 5 sinnum stærri en Hagkaup í Skeifunni. Upplifun mín af þessari búð var ekkert spes. Dæmigerð hagkaupsbúð, bara miklu stærri. Við vorum þarna á gangi í um tvo tíma og ég þurfti að fara í langa og heita sturtu á eftir. Ekki til að þvo af mér verslunarhryllinginn heldur til að ná hita í líkamann. Kuldinn inni í þessum búðum er slíkur að maður þarf helst að vera í kuldaúpu til að meika það þarna inni.
Eftir heita sturtu var haldið af stað í Florida Moll að sækja stelpurnar Sem voru alveg uppgefnar enda höfðu þær ekki notið aðstoðar pokadýranna sinna í þessari innkaupferð. Síðan var stoppað á fyrsta BurgerKing stað sem var á leið okkur en betri matur var ekki í boði þennan daginn. Þá var þessum vinnudegi í Orlando lokið og það var gott að geta loks lagst á koddann. Vonandi verður næsti dagur sólríkur og heitur.