Skógivaxin fjallshlíðin mætti augum mínum þegar ég steig út svalirnar á klefanum mínum kl. 9 að morgni þriðjudagsins 22. mars. Skipið lá við bryggju sem var eins og landgangur í laginu. Hún lá ofurlítið út í sjó og beygði síðan upp að skipinu.
Við vorum búin að ákveða að kíkja í land og skoða okkur um. Um leið og mér tókst að vekja Öllu var haldið af stað í morgunmat. Hópurinn hélt síðan af stað í land og tókum við göngutúr eftir strandgötunni og til baka og enduðum á lítilli strönd rétt hjá skipinu. Ocho Rios er lítill bær með gömlum og hrörlegum húsum. Frekar skítugur og áreitið frá sölumönnum er gríðarlegt. Samt er þetta á sinn hátt
fallegur staður með gróðurvöxnum fjallshlíðum á eina hlið og sjó á hina. Hitinn og rakinn var nánast óbærilegur og þegar ég kom til baka um borð í skipið þá leið mér svolítið eins og ég væri búnn að vera í gufubaði í nokkra tíma. Við svona aðstæðum er ekki til nema eitt ráð. Kaldur bjór. Tilfinningin þegar ískaldur bjórinn fyllti munninn á leið sinni niður í maga var ólýsanlega góð. Þegar ég ætlaði að fara að panta þann þriðja var mér vinsmlega bent á að það væri nú ekki sniðugt að fara með fullan maga af bjór í ræktina. Ég var sem sagt á leiðinni í líkamsræktina í skipinu. Ótrúlegt að þegar maður er loksins búinn að segja starfi sínu sem pokadýr lausu þá er maður dreginn í líkamsrækt. Á miðju Karíbahafi. Ég er hlýðinn maður og fór með minni í ræktina þar sem ég hljóp eina mílu á hlaupabrettinu. Eða svona næstum því hljóp. Labbaði aðeins á milli. Þegar þeirri þolraun var lokið benti Alla mér á að taka nokkur lóð og fara í einhver lyftingatæki sem ég og gerði. Eins og fyrr hefur komið fram þá er ég eiginlega alveg rosalega vitlaus og ekki virðist bjórinn gera mig neitt gáfaðri sem er ekki gott mál. Ég hefði auðvitað átt að fatta það þarna í ræktinni að það væri verið að þjálfa upphandleggsvöðvana mína til að ég yrði betri í pokaburði. Ég er alltaf að átta mig betur og betur á því að konan mín er ekki bara falleg. Hún er líka bráðgáfuð og sniðug! Hún lætur mann halda að maður sé að djöflast í líkamsræktinni til að manni líði betur og brenni einhverju af öllum þeim mat sem maður er búinn að innbyrða þegar markmiðið er í raun að gera mann að sterkara pokadýri.
Um kvöldið var haldið á veitingastað sem heitir Simphony en þar var innbyrtur matur af 4 rétta matseðli með drykkjarföngum í stíl. Að því loknu var haldið í leikhúsið. Næsta morgun yrðum við á sjóræningjaslóðum á Grand Cayman eyjum. Arrchhh.