„Ertu til í að ganga upp á eitthvað fjall með mér?“
„Ha! Ganga upp á fjall?“ Ég var rétt nýbúinn að klára úr fyrsta kaffibolla dagsins og þ.a.l. tæplega vaknaður.
„Já. Mig langar svo að ganga upp á fjall hér fyrir austan.“
Ég sá það á svipnum á minni að henni var alvara. Augun helmingi stærri en vanalega og hún átti erfitt með að standa kyrr. Ég rifjaði upp í huganum allar athugasemdirnar frá henni í bílnum á leiðinni austur. Þær sneru að hinu og þessu fjallinu sem á vegi okkar varð og hvort það væri mögulegt að ganga upp á það.
„Ég nenni því varla.“ Svaraði ég um leið og ég fyllti á kaffibollann. „Ég hélt að við værum hér í fríi?“
„Jú en við verðum að gera eitthvað í fríinu. Það er ekki hægt að gera ekki neitt úr því að við erum komin hingað.“
„Æi.“ Ég gretti mig ámátlega. „Ég er eiginlega hálf eftir mig eftir sláttinn í gær.“ Það var alveg satt og rétt að ég var í frekar slæmu ástandi eftir sláttuorfið sem ég hafði mundað fyrsta „frí“ daginn minn á héraði. Það hafði reynst talsvert mikið erfiðara en ég hafði talið.
„Okei. Hvað með smá göngutúr?“
Ég hugsaði mig um í stutta stund. „Allt í lagi. Stuttan göngutúr.“
Við lögðum stuttu síðar af stað í göngutúrinn sem hófst á því að ég þurfti að snúa Öllu við þar sem hún var á leið út úr bænum en ekki inn í hann eins og ég hafði haldið að stefna ætti.
„Það er ekkert gaman að labba þarna.“ Sagði Alla. „Engir hólar eða brekkur. Ég vill fara út í náttúruna.“
„Það eru víst brekkur hérna.“ Sagði ég enda standa Egilsstaðir eiginlega í brekku. “Ég nenni ekki að fara í göngutúr út í sveit.”
Mín Sættist loks á bæjargönguna og óð af stað og það sem ég hélt að ætti að vera „göngutúr“ um Egilsstaði varð einhverskonar kraftganga þar sem ég mátti hafa mig allan við til að halda í við hana. Eftir klukkutíma kraftgöngu í kringum stóran hluta af Egilsstöðum var stanðnæmst í kaupfélaginu (Nettó) á staðnum þar sem Alla ætlaði að kaupa sér tyggjó. Ég var hvíldinn feginn þangað til ég tók eftir því að mín strunsaði beint inn í fatadeildina.
„Ertu ekki búin að finna tyggjóið?“
„Jú. Ég ætla bara aðeins að skoða hérna. Það er svo rosalega ódýrt hérna.“
„Nú?“ Ég leit á einn verðmiða og sá strax að hvað sem verðið var þá var það ekki ódýrt.
„Geturðu ekki gert þetta þegar við erum komin heim?“ Spurði ég biðjandi röddu.
„Nei þetta er svo ódýrt. Oh þú stressar mig bara upp. Ég verð bara lengur að skoða ef þú hangir svona yfir mér.“
Ég sá að það þýddi ekkert að koma vitinu fyrir hana þannig að ég fór að skoða kryddúrvalið.
Heimferðin frá Egilsstöðum gekk vonum framar. Við fórum suðurleiðina sem þýddi að við þurftum að aka um Öxi. Ég vorkenndi bílnum á þeirri leið enda fékk hann vel útilátin spörk í gólfið og högg á hvalbakinn en hann þoldi það nú greyið enda orðinn vanur henni Öllu. Útsýnið af Öxi var magnað og ég verð að viðurkenna að ég var pínulítið lofthræddur þar sem ég sat við stýrið á bílnum. Vegurinn þarna er líka þannig að stundum sér maður ekki veginn framundan heldur einungis efsta hlutann af vegstikunum. Það er sem betur fer aðeins á nokkurm stöðum. Ekið var sem leið lá í Selsund þar sem við eyddum nóttinni í bústaðnum hjá Svövu og Jóa. Hekla, sem er rétt við bústaðinn, bærði ekki á sér um nótina og heimferðin frá Selsundi gekk að óskum. Loksins er ég kominn heim þar sem ég get hvílt mig og slappað af.