Eftir viðburðaríkan laugardag sem kvenfólkið hafði notað til að heimsækja verslanir borgarinnar rann Páskadagur upp með sól og 20 stiga hita. Sem betur fer þá hafa Ungverjar tuskubúðirnar lokaðar á þessum degi og þeim næsta sem á eftir fylgir. Ég hafði reyndar heyrt eitthvað tal um að mollin væru opin en passaði mig á því að nefna það ekki við neinn í hópnum. Þessi í stað hvatti ég kvenfólkið til að slaka aðeins á og prófa sólina í nokkra tíma. Hvað er jú betra en að liggja í sólinni og slaka á.
Ég var meira að segja búinn að finna flottan garð með bekkjum, grasi og gosbrunnum rétt við hótelið og benti á að þar væri hægt að setjast niður og slaka á í sólinni.
„Í dag förum við í Ungversku böðin“ Sagði Edda þórunn ákveðin. „Ég er búin að panta fyrir okkur.“
„Hvaða böð? Ég er með sturtu á hótelinu og hún er alveg nógu Ungversk fyrir mig.“ Sagði ég.
„Ekki vera svona halló pabbi.“ Sagði Edda. „Þetta er spa og allt og það fara allir ferðamenn þangað. Við ætlum líka.“
Ég var nokkuð viss um að þessi böð væru svona ferðamannastöppustaður og heilinn minn fór á fullt í að finna undankomuleið. Það eina sem hefði mögulega fengið konurnar ofan af því að fara í böðin var löng verlsunarferð en það var víst ekki möguleiki enda tuskubúðir lokaðar á þessum drottins degi. Ég veit reyndar ekki hvort var verra. Að æða búð úr búð eða troðast í gegnum ferðamannaþvögur í Ungveskri sundlaug. Þá svona eins og fyrir kraftaverk gerðist það. Ég fékk í bakið. Svo hrikalega að ég gat varla gengið. Ég varð því löglega afsakaður og gat bara slakað á og undirbúið mig fyrir leiki dagsins á næsta bar.
„Þú slakar bara á í dag pabbi minn og nærð þér góðum í bakinu.“ Sagði Edda
Í því komu Rúnar og Torfhildur til okkar. Rúnar var klár í laugina með bakpokann á bakinu en Torfhildur var svolítið föl að sjá.
„Ekki eru lasin?“ Spurði ég.
„Nei ég bara gat ekki málað mig í morgun.“ Svaraði hún.
„Nú. Ekki tími?“
„Nei það er helvítis klósettið.“ Svaraði hún.
„Klósettið?“
„Já það er svo lítið.“
„Of lítið til að mála sig á því? Spurði ég svolítið hissa af því að Alla átti ekki í neinum vandræðum með að hertaka klósettið á okkar herbergi til viðgerða og málunar.
„Nei ég lagði Mac dósina frá mér á klósettkassann.“
„Tölvuna? Settirðu hana a klósettið?“ Ég var hættur að skilja í þessu.
„Nei. Nýja Mac meikið mitt. Ég sett það á klósettkassann af því að hann er eina hillan inni á klósetti. Síðan rak ég mig í hann þegar ég sneri mér við og dósin rann ofan í klósettið. Það er sennilega betra að loka klósettsetunni.“
Ég kvaddi hópinn sem nú hélt af stað í bað og ég fór að sinna öðrum og skemmtilegri hlutum.
Eftir vel heppnaða baðferð kom hópurinn síðan til baka síðla dags. Allir hreinir og fínir svo að ég sá mig knúinn til að fara í Ungverska sturtu til að vera klár fyrir kvöldið. Ferðinni var heitið í kínahverfið á kínverskan matsölustað. Ferðin þangað fór ekki vel af stað en leigubílstjórinn hafði ætlað sér að fara krókaleið með okkur sem hefði lengt bíltúrinn um 15 mínútur og fært honum meira í veskið. Maggi var sem betur fer með google maps opið í símanum sínum og benti hann leigubílstjóranum vinsamlegast á að hann væri að fara ranga leið. Sá brást frekar illa við en leiðrétti þó stefnuna og fór rétta leið. Á veitingastaðnum fengum við okkur Pekingönd og rækjur og verðið fyrir allt saman með léttvíni og bjór fyrir 6 manns var um 17.000 isk.