Albir - LaColina. Tattóveraðir Bretar.

júl 20 2008 Vertu fyrst-ur til að skrifa ummæli!
Meta þessa grein
(0 atkvæði)

Ég get bara sagt O.M.G. Hitinn hér hækkar með hverjum deginum og er sennilega kominn í 35 gráður núna. Í forsælu. Það er erfitt að vera í fötum og maður er eins og gatasigti þar sem allur vökvi sem maður lætur ofan í sig rennur samstundis út úr líkamanum. Svitabað er eina orðið sem er til yfir svona aðstæður.

Fór um daginn í Benidorm. Það er sá mesti “low class” ferðamannastaður sem ég hef á ævinni komið til. Ljót og skítug háhýsi sem sum standa eins og prik tuttugu til þrjátíu hæðir upp í loftið. Allt úir og grúir af tattóveruðum Bretum syngjandi fótboltasöngva íklæddir fótboltatreyjum. Inn á milli eru einstaka gamalmenni sem manni finnst ekki alveg passa inn í götumyndina. Veitingastaðir á hverju strái og Kínverjarnir búnir að yfirtaka tusku og skranbúðirnar sem eru út um allt með tíu skrefa millibili. Þarna þrammaði ég um í nokkra klukkutíma áður en loksins var hægt að finna matsölustað til að setjast á. Matsölustaðurinn var Pizza Hut og maturinn þar sá dýrasti á Spáni hingað til.
Í gær fór dagurinn að mestu í að liggja í leti og fylgjast með öllum “hvítingjunum” sem komu á fimmtudaginn, við sína daglegu iðju. Liggja í sólbaði. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þau svolítið aumkunarverð þessi grey, svona hvít og föl. Ég er a.m.k. orðinn brúnn í framan og hendurnar dökkna meir og meir með hverjum degi. Þetta endar sennilega þannig að ef ég fer í að bera á grindverkin í garðinum heima þegar ég kem til baka þá verði ég að vera í hvítum hönskum til að vita hvar hendurnar eru.


Reyndar kom upp smá atvik í gær, svona eitt af þessum sem gera ferð eins og þessa eftirminnilega. Ég ákvað að elda hádegismat svona upp úr kl. 14.00. Steikti beikon og egg með danskri dósaskinku sem kostar nánast ekkert hérna. Ég sendi síðan SMS til Öllu sem ótrúlegt en satt, var úti í garði í sólbaði. Sagði henni að það væru 5 mínútur í matinn. Stuttu síðar kemur Edda síðan upp í íbúð og ég spyr hana hvar mamma hennar sé. Hún varð hissa, hélt að hún væri komin. Hvað um það. Ég taldi að Alla væri líklega að fara “garðgang” þ.e. tala við alla sem búa á fyrstu hæð á hótelinu. Hún er vön að gera það þegar hún fer út í garð og úr honum. Það sem sagt líður og bíður og ég er farinn að borða þegar ég fæ SMS frá Öllu. Í því stendur “Ætlarðu að Opna!!” Ég opna hurðina fram og gang og sendi til baka “Það er opið”.
Stuttu síðar er bankað á dyrnar og þar er Alla komin rjóð í framan.
Hún sagði mér að hún hafi verið búin að berja á hurðina í dágóða stund en enginn kom til dyra. Þá barði hún fastar á hurðina og kallaði “Tóti! Ætlarðu að opna hurðina!” Þá opnaðist önnur hurð á ganginum og ungur Svíi skaut út höfði með undrunarsvip á andlitinu. Alla afsakaði sig og brosti til hans þar til hann lokaði hurðinni aftur. Þá hélt hún áfram að berja og kalla og svo fór að ungi Svíinn kom aftur í hurðagættina á sinni íbúð og enn og aftur afsakaði Alla sig með því að segja: “My husband is in there”. Það var þá sem hún áttaði sig á því að númerið á hurðinni sem hún hafði verið að berja á var 201 en ekki 301 eins og á okkar hurð. Hún var á hæðinni fyrir neðan okkur.
Laugardagurinn endaði síðan í grillveislu á hótelinu þar sem Álfhildi tókst að kynnast nýju fólki. Nú er bara að vona að sunnudagurinn beri með sér mikla brúnku fyrir alla.

150 aðferðir til að lifa af í sumarfríi á Spáni með þremur kaupóðum og sóldýrkandi konum
2. Þú mátt aldrei undir nokkrum kringumstæðum láta í ljós ósk um að það gæti nú verið gaman að kaupa eins og einn fótboltabol í bænum. Ef þú gerir það þá er alveg á hreinu að þú endar með 10 tuskur í poka(engin þeirra er fyrir þig), blöðrur á fótunum og þurran háls.
Segðu öllum að þú ætlir að skreppa í smá könnunargönguferð upp næstu fjallshlíð. (Ef það er ekkert fjall nálægt segðu þá að þú ætlir niður í lobbý að kíkja í möppuna frá fararstjóranum til að athuga með kynnisferðir). Farðu síðan út í næstu tuskubúð, keyptu þann bol sem þér lýst vel á og klæddu þig í hann innundir þann sem þú ert í. Þegar þú kemur til baka inn á hótel þá setur þú bolinn ofan í pokann þar sem þú geymir allar óhreinu nærbuxurnar þínar.
Þannig getur þú keypt þér einn tuskubol og komið honum heim óséðum.

Lesið 327 sinnum Síðast breytt þann jún 30 2019
thg

Skrifa ummæli

Athugaðu að skrá nauðsynlegar (*) upplýsingar þar sem þess er krafist. HTML kóði er ekki leyfður.

Leita

Dagatal

« Júlí 2020 »
Mán Þri Mid Fim Fös Lau Sun
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31