Tenerife Heimferðin

feb 18 2018 Vertu fyrst-ur til að skrifa ummæli!
Meta þessa grein
(0 atkvæði)

Heimferðin frá Tenerife gekk bara vel og það var bara mjög gott að koma heim í snjóinn. Það var bara fínt að vera á Tenerife þessa viku sem ég var þar fyrir utan verðrið sem var heilt yfir ekki gott. Lítil sól og frekar kalt, sérstaklega á kvöldin og fyrir kuldaskræfur eins og mig er öruggara að hafa úlpuna með til að sofa í á nóttunni eða nokkrar þykkar peysur.

Tenerife er fyrir mér bara enn einn „massa-túrista“ staðurinn sem er allt í lagi að heimsækja ef maður fílar sig eins og hinar engispretturnar sem taka sig upp þegar þær eru búnar að troða einn staðinn niður og færa sig yfir á þann næsta. Ég lærði þó það í þessari ferð að ef maður er tilbúinn til að eyða aðeins meiru í gistinguna, vera aðeins í burtur frá ströndinni og helst á 5 stjörnu hóteli þá er þetta bara fínt. Það besta við Tenerife að mínu áliti er maturinn. Það er fullt af góðum veitingahúsum þarna að velja úr og verðið líklega 50% lægra en hér heima? Staðir eins og Bianco, Imperial-Taipan og líbanski veitingastaðurinn sem ég man ekki hvað heitir voru frábærir og síðan er líka hægt að detta inn á MacDonalds eða BurgerKing ef maður vill fíla sig eins og tattóveraður breti. Það er kannski ekki sanngjarnt að segja að Tenerife sé eins og Benidorm en ég spái því að svo verði innan fárra ára og þá taka engispretturnar flugið og finna annan stað að fara á.

Ég hafði pínulitlar áhyggjur af því þar sem ég sat í flugvélinni á leiðinni heim hvað biði mín. Það er nefnilega þannig að þegar Alla fór út, viku á undan mér, þá sótti ég borvélina mína og verkfæratöskurnar í geymsluna og hófst handa við að laga það sem var í ólagi í íbúðinni. Maður verður bara að sætta svig við að þegar maður býr með fílamömmu á heimilinu þá lætur það á sjá og í mínu tilviki þá nenni ég ekki að vera að hlaupa með verkfærin upp og niður stigana nema um neyð sé að ræða. Betra finnst mér að bíða bara þangað til ég get sent hana í sumarbústað eða til útlanda og laga þá það sem laga þarf. Hún viðurkennir reyndar aldrei að hafa skemmt neitt nema ég standi hana að verki eins og þegar hún fór í sturtu um daginn og ég heyrði þennan svakalega skarkala, dynki og blótsyrði frá baðherberginu. Þá hélt ég að hún væri búin að slasa sjálfa sig en varð rólegur þegar ég heyrði hana bölva sturtuhenginu sem henni hafði einhvernveginn tekist að fella niður í baðkarið. Skemmdir urðu einhverjar en sturtuhenginu var kennt um eða eins og hún sagði: „þetta er bara helvítis drasl....“

Þar sem Alla var með mér í flugvélinni voru áhyggjur mínar ekki af því sem hún hefði getað skemmt á meðan ég var í burtu heldur af fílabarninu sem var eitt heima. Eins og það sé ekki nóg að hafa eina Öllu á heimilinu þá er dóttir mín eftirmynd móður sinnar að þessu leyti. Hún er reyndar ung ennþá og fer aðeins hægar yfir en móðir hennar en ég mundi eftir því þegar ég var að fara yfir það með henni hvernig heimilistækin virkuðu áður en ég fór út. Kenna henni að setja í uppþvottavélina (gleymdi reyndar að segja henni að ekki mætti setja tréskurðarbretti í vélina) og hvernig þurrkarinn virkaði.

Ég notaði þá aðferð að láta hana setja í þurrkarann og hreinsa síurnar og sagði henni síðan að loka hurðinni á þurkaranum. Hún skellti auðvitað hurðinni aftur þannig að þurrkarinn færðist nokkra sentímetra afturábak og þegar ég sagði við hana „loka, ekki skella“ þá skildi hún ekki hvað ég var að tala um.

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég gekk inn í íbúðina og lagði ferðatöskuna frá mér á gólfið var grátt plasthjól á eldhúsborðinu. Ég spurði: „Hvað er þetta?“ og benti á hjólið.
„Ég veit það ekki. Þetta var bara þarna.“ Svaraði Edda
„Þetta er úr uppþvottavélinni.“ Sagði ég. „Hjól af annarri grindinni. Hvað gerðist?“
„Það gerðist ekki neitt. Þetta er örugglega eftir mömmu.“ Og með það fór hún að fylgjast með móður sinni opna ferðatöskuna til að fara yfir allt góssið.“
Ég kom hjólinu fyrir á sínum stað, feginn því að í þetta skipti þurfti ég ekki á verkfæratöskunni minni að halda.

Lesið 506 sinnum Síðast breytt þann júl 01 2019
Aðrar greinar í þessum flokki: « Tenerife
thg

Skrifa ummæli

Athugaðu að skrá nauðsynlegar (*) upplýsingar þar sem þess er krafist. HTML kóði er ekki leyfður.

Leita

Dagatal

« September 2020 »
Mán Þri Mid Fim Fös Lau Sun
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30