Tenerife þriðjudagur

feb 14 2018 Vertu fyrst-ur til að skrifa ummæli!
Meta þessa grein
(0 atkvæði)

Þriðjudagurinn tók á móti okkur með drungalegum skýum. Ég saup hveljur þegar ég leit til himins en ákvað að vera bara fastur fyrir. Engin moll og engar kraftgöngur fyrir mig í dag.

Eftir morgunmatinn sá ég að mín var farin að ókyrrast. Ég tók eftir því að hún var í hlaupaskónnum sínum, stuttbuxum og hlýrabol og ómáluð. Hún var sem sagt ekki útbúin fyrir verslunarferð sem þýddi að kraftganga var yfirvofandi.
“Hvað ætlar þú að gera?” Spurði hún
“Ég ætla að sitja hérna í 20 mínútur á meðan herbergið er þrifið. Þá ætla ég upp og út á svalir að lesa eða eitthvað. Eða bara gera ekki neitt. Við sátum með kaffibolla við borð í hótelgarðinum.
“Ég er að hugsa um að fara í smá göngu. Bara stutta. Viltu koma með?”
Ég samþykkti það en þurfti fyrst að skipta um skó þegar búið væri að þrífa herbergið.
Eftir 10 mínútur var mín staðin upp frá borðinu og farin að tvístíga í kringum mig.
“Hvað erum við búin að vera lengi hérna?”
“Bara 10 mínútur eftir.” Sagði ég.

Alla gretti sig en lét sig hafa það og eftir 10 mínútur fórum við upp á herbergi. Þá tók við smá vinna við að svara tölvupóstum en þegar henni var lokið var Alla hvergi sjáanleg. Eftir stutta leit fann ég hana á sólarbekknum úti á svölum. Viti menn. Sólin var farin að skýna.
“Jæja. Eigum við ekki að koma?” Spurði ég.
“Nei. Ekki séns. Réttu mér sólarolíuna sem er inni á baði.”
Blessuð sólin elskar allt og greinilega mig líka. Framundan var náðugur dagur á svölunum.

Um kvöldið var haldið í heimsókn til Hannesar og Ingu sem dvelja ásamt Siggu vinkonu Ingu og börnunum á hóteli í Los Christianos. Nánast alveg uppi í fjalli. Þar var sest niður í drykk og forrétti áður en haldið var á Chill Out steikhúsið við ströndina. Steikhúsið er skemmtilegur og flottur staður og það var mikið fjör og gaman hjá okkur en við vorum 15 sem sátum þar við borð.

Alla er búin að haga sér undarlega vel í þessari ferð. Engar skrítnar spurningar til þjóna eða starfsmanna verslana, hún er ekkert að æfa sig í spænskunni og greinilegt að hún hugsar um hvert orð áður en hún lætur það út úr sér. Þangað til í kvöld. Hressir og skemmtilegir þjónar ásamt hæfilegu magni af Heineken losa ofastst um málbeinið hjá henni.
Þjóninn okkar var ungur og hress náungi frá suður ameríku og var Alla að sjálfsögðu mjög áhugasöm um hann.

“Where are you from?” Spurði hún
“Venezuela.” Svaraði þjónnin
“Ó I have been there two times. Great place” Sagði Alla brosandi.
“Really?” Svaraði þjónninn brosandi og áhugasamur um hvar hún hafi verið í Venezuela.
“Þú hefur aldrei komið til Venezuela Alla mín.” Sagði ég
Hún leit á mig og sagði síðan við þjóninn. “No sorrí not Venezuela. I have been to Feneyjar.”
Síðar um kvöldið kvað við óp frá Ragnhildi sem hafði tekið eftir einhverju kvikindi á sólhlífinni fyrir ofan sig. Alla var skjót að bregðast við, kallaði á þjóninn og sagði:
“Ekskuse mí. Can you come here and take the kakkalakki? My friend does not like it.”
Þjóninn brást skjótt við og fjarlægði kakkalakkann. Alla brosti til hans og sagði: “You are so nice I like to kill you.”

Sólin er komin til Benirife enda ekki seinn vænna þar sem við höldum heim á morgun. Mér hefur tekist nokkuð vel að varðveita hvíta litinn og Öllu hefur tekist að ná hverjum einasta sólardropa út úr sólinni í þessari ferð og er orðin kaffibrún að vanda þrátt fyrir litla sól og lágan hita. Í dag, miðvikudag, er heiðskýr himinn og glampandi sól og engispretturnar þekja strendurnar þar sem enginn möguleiki er á að finna lausan sólarbekk. Maurafjöldinn á aðalgötunni hefur tvöfaldast frá síðustu viku og ljóst að fólksflutningar til eyjanna hafa verið miklir á síðustu dögum.

Á morgun kemur nýr dagur og við tekur 8 tíma ferðalag heim í snjóinn á Íslandi.

Lesið 436 sinnum Síðast breytt þann júl 01 2019
Aðrar greinar í þessum flokki: « Tenerife Heimferðin Tenerife 2 »
thg

Skrifa ummæli

Athugaðu að skrá nauðsynlegar (*) upplýsingar þar sem þess er krafist. HTML kóði er ekki leyfður.

Leita

Dagatal

« September 2020 »
Mán Þri Mid Fim Fös Lau Sun
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30