Tenerife

feb 07 2018 Vertu fyrst-ur til að skrifa ummæli!
Meta þessa grein
(0 atkvæði)

Þá er maður kominn á þann stað sem mest er í hávegum hafður hjá flestum Íslendingum í dag. Staður dásemda og letilífs. Tenerife.

Fyrir minn smekk er flugið hingað allt of langt. Heilir fimm klukkutímar með hnén ofan í næsta sætisbaki með óæðri endann á hörðu leðursæti er nánast eins og pynting eða kannski væri nær að tala um þrekraun að láta svona yfir sig ganga.

Flugtíminn til Akureyrar er svona hæfilegur fyrir minn óæðri enda.

Hvað um það. Þetta hafðist allt saman og ég komst á leiðarenda þar sem hún Alla mín beið brosandi glöð. Leið mín í leigubílnum frá flugvellinum á hótelið lá í gegnum hæðótt og hrjóstugt landslag sem hefði minnt mig á hið kalda frón ef ekki hefði verið allt ruslið og draslið sem er úti um allt. Hálf hrundar byggingar, vírgirðingar og bílhræ færðu mér heim sanninn um að ég væri á Spáni en ekki á Íslandi. Ég reyndi af fremsta megni að sjá fegurðina sem íslendingar tala flestir um þegar minnst er á Tenerife en sá hana ekki. Benidorm, Barcelona, Tenerife. Þetta er allt eins fyrir mér. Kannski er ástæðan sú að ég var ekki búinn með nema einn bjór svo að vonandi mun skynjum mín á staðnum breytast á komandi dögum?

Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir á hótelinu sagði Alla stutt og laggott. “Ég er svöng. Eigum við ekki að fara og fá okkur hamborgara. MacDonalds er hérna rétt hjá.”
Ég gat ekki annað en samþykkt þessa ráðagerð þar sem ég hafði lítið borðað þennan daginn. Út var arkað og eftir góða göngu sagði Alla. “Þarna. Þarna er skiltið. Sérðu það ekki?”
“Jú ég sé það.” Svaraði ég. “Það er reyndar svolítið langt í burtu.” Ég var orðinn hálf þreyttur á göngunni og farinn að þrá stól, borð með mat og kaldan bjór.
“Þetta er stutt.” Svaraði mín og arkaði af stað. Eftir stutta göngu stansaði hún og sagði. “Nei þarna er moll.”
Fyrir framan mig var stór bygging með skilti sem á stóð. “Tenerife Sur Shopping center”. Það fór kaldur hrollur upp bakið á mér. “Ég er ekki að fara í neitt búðarráp núna.” Sagði ég ákveðinn. “Ég er svangur.”
“Já ég líka. Við löbbum bara þarna í gegn og þá komum við á MacDonalds.”

Ég gat ekki annað en samþykkt það og sem betur fer var þetta ekki hryllingsmoll heldur eitthvað líkara Mjóddinni sem er ekki moll á mælikvarða íslenskra kvenna. Ég slapp því fyrir horn í þetta skipti og fékk magafylli af MacDonalds og bjór að drekka. Vonandi á þessi bjór eftir að verða fyrsta skrefið í að opna augu mín fyrir fegurð Tenerife………

 

Lesið 324 sinnum Síðast breytt þann júl 01 2019
Aðrar greinar í þessum flokki: « Tenerife 5
thg

Skrifa ummæli

Athugaðu að skrá nauðsynlegar (*) upplýsingar þar sem þess er krafist. HTML kóði er ekki leyfður.

Leita

Dagatal

« Ágúst 2020 »
Mán Þri Mid Fim Fös Lau Sun
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31