Orlando Dagur 1

mar 17 2016 Vertu fyrst-ur til að skrifa ummæli!
Meta þessa grein
(0 atkvæði)

Þar sem ég sat í Boeing þotu Icelandair á leiðinni til Orlando í Florida fór ég að rifja það upp hvenær þessi ferð var ákveðin. Það var á haustdögum 2015 sem við ákváðum að leggja það til við matarklúbbinn okkar að fara í “siglingu” um Karíbahaf.

Ekki voru allir tilbúnir í það og svo fór að 3 pör ákváðu að slá til. Ég og Alla, Svava og Jói og Hannes og Inga. Við Alla ásamt Svövu og Jóa ákváðum síðan að bæta sex nátta ferð til Orlando framan við ferðina. VIð verðum sem sagt 6 nætur í Orlando áður en við keyrum niður til Fort Lauderdale þar sem við munum stíga um borð í glæsiskipið Regal Princess. Þar munu Hannes og Inga bætast í hópinn sem mun sigla saman um vestur-Karíbahaf í eina viku. Ferðinni er heitið til Bahamas, Cayman eyja, Costa Maya og Cozumel. 
Tilhlökkunin er mikil og ég læt mig hafa það að sitja í tæpa 8 klukkutíma í hörðu leðursætinu í Helgafelli, en það er nafnið á þotunni sem flytur okkur til Orlando, þar sem ég veit að á leiðarenda bíður mín sól, meiri sól, hiti, meiri hiti, bjór, margarítur, nautasteikur og afslöppun. Það er reyndar rosalega erfitt að sitja svona lengi í flugvél og ég er nú reyndar kominn á þá skoðun að þessar 757 vélar eru of litlar í svona langt flug. Það er varla hægt að standa upp og teygja úr sér þar sem gangarnir eru þröngir og klósettin eru bara tvö talsins sem er ansi lítið. Enda voru þau fljót að fyllast. Við komuna til Orlando tók við löng bið í langri röð við vegabréfaeftirlit og tollskoðun. Það voru tveir eða þrír að vinna við kjammaskoðun og fingrafaraskráningu en þetta hófst allt saman að lokum. Alla var furðu róleg í röðinni og gerði ekkert af sér í skoðuninni sem betur fer. Þessu næst sóttum við bílaleigubílinn en fyrsta spurningin sem var lögð fyrir Jóa af starfsmanninum þar var “Two drivers sir?” Hún Alla mín var fljót til svara þó að spurningunni hafi ekki verið beint til hennar og svaraði: “Yes he is a very cool driver.” Henni heyrðist sem sagt að starfsmaðurinn hefði spurt: “Cool drivers.” 
Loks var ekið af stað frá flugvellinum og þrátt fyrir að vera vel búin tæknilega, með fullkomið gps tæki meðferðis, gekk erfiðlega að finna rétt hótel. Það hafðist fyrir rest og það voru þreyttir en hressir ferðalangar sem opnuðu dyrnar á hótelíbúðinni sinni fegnir að geta loks hallað höfði eftir langt ferðalag og 4 klst tímamismun. Það sem mætti okkur inni í íbúðinni gerði þær vonir okkar að engu. Lyktin var eins og ég væri staddur á miðri Römblunni í Barcelona. Svona sambland af klóak og fúkkafýlu. Ég þurfti að klípa sjálfan mig í handlegginn til að vera viss um að vera ekki staddur inni í miðri martröð þar sem ég væri raunverulega í Barcelona en ekki Orlando. Jú ég var í Orlando. Á miðju gólfi í íbúðinni stóð síðan stór iðnaðarloftblásari sem blés lofti af öllum lífs og sálarkröftum með tilheyrandi hávaða. Ég hugsaði með mér að varla væri þetta loftkælingin? Þegar þarna var komið var nauðsynlegt að ræða málin og þrátt fyrir að vera þreytt eftir erfitt ferðalag ákváðum við að kvarta strax í stað þess að bíða með það til morguns. Eftir rúman klukkutíma fengum við aðra íbúð á betri stað með frábæru útsýni og allan farangur fluttan á milli íbúða. Dagur 2 Eftir sex tíma svefn vaknaði ég glorhungraður og ákvað að læðast fram og skjótast út í stórmarkað að kaupa eitthvað í skápana. Það fyrsta sem ég sá þegar ég kom fram var Svava, skælbrosandi, tilbúin í sólina eða mollin. Henni var alveg sama hvort væri. Jói var ennþá í rúminu en kom fljótlega fram og við sammældumst um að fara saman út í matvörubúð. Ég hafði ekki ætlað mér að byrja fyrsta daginn í Orlando á því að fara út í búð en það var bara ekki annað hægt. Það eina sem var til á heimilinu var bjór og súkkulaði. Eftir góða en rándýra búðarferð var ákveðið að slaka á í sólinni og um 12.30 var haldið út í garðinn sem er fyrir utan okkar blokk. Það er ekki aðalgarður hótelsins heldur aðeins minni og rólegri garður. Ég var mjög ánægður með garðferðina og ákvað að slást í hópinn, allavega í einhverjar mínútur, til að tryggja að stelpurnar kæmu sér vel fyrir á sólarbekkjunum og væru þar sem allra lengst. Það er nefnilega miklu betra að hafa þær við sundlaugina heldur en að elta þær um einhver átlett moll sem er víst nóg af hér á þessum stað. Maður þarf ekki að keyra nema í nokkrar sekúndur til að sjá skilti sem á stendur “outlet” eitthvað. Þau eru út um allt hérna þessi skilti og mig er farið að gruna að ég hafi verið plataður. Ég var mjög ánægður með að slaka aðeins á í sólinni hérna til að vera klár í fjörið í Karíbahafinu og það var aldrei talað um nein moll við mig. Bara að ég hefði nú gott af smá fríi og að slaka á. Mig rennir í grun að ef ég finn ekki upp á einhverju öðru fyrir stelpurnar að gera þá muni ég mæta úttaugaður, uppgefinn, fátækur og með nokkrar auka ferðatöskur um borð í skipið. Ég hef því ákveðið að leggjast á bæn og biðja um sól og meiri sól. Það er mín eina von að það muni ekki draga sól fyrir ský og ég er búinn að ákveða að passa upp á að þær hafi nóg að drekka á sundlaugarbakkanum og að þær snúi sér reglulega. Ég er búinn að læra það að “sólardýr” þurfa að snúa sér reglulega til að brenna ekki. Svona svipað og þegar maður setur steik á grillið. Þá þarf að passa að snúa henni reglulega.

 

Lesið 278 sinnum Síðast breytt þann júl 01 2019
Aðrar greinar í þessum flokki: « Egilsstaðir 3
thg

Skrifa ummæli

Athugaðu að skrá nauðsynlegar (*) upplýsingar þar sem þess er krafist. HTML kóði er ekki leyfður.

Leita

Dagatal

« Júlí 2020 »
Mán Þri Mid Fim Fös Lau Sun
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31